*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 1. desember 2020 10:39

Brot Sigríðar ekki aðeins „tæknilegt“

Allir þrír armar ríkisvaldsins fá pillu frá Mannréttindadómstól Evrópu í dómi hans í Landsréttarmálinu.

Jóhann Óli Eiðsson
european pressphoto agency

Framganga Sigríðar Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í Landsréttarmálinu fól ekki aðeins í sér „tæknilegt brot“ heldur alvarleg frávik sem brutu gegn réttinum til málsmeðferðar fyrir dómi sem komið er á fót með lögum. Þá var ekki tilefnislaust fyrir sakborning í málinu að trúa því að meðferð Alþingis á skipan réttarins hafi verið knúin áfram af flokkapólitík. Rétturinn tekur síðan fram að hann hafi ekki fundið neitt sem bendir til þess að sú hafi verið raunin.

Þetta kemur fram í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem kveðinn var upp í dag í málinu. Yfirdeild réttarins var einróma um það brotið hefði verið gegn réttinum til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi skipuðum að lögum. Að auki var ríkinu gert að greiða rúmlega þrjár milljónir króna í málskostnað. Aftur á móti klofnaði dómurinn þegar kom að því að ákveða hvort sá sem brotið var gegn ætti rétt á bótum. Fjórir dómarar töldu svo vera en þrettán dómarar voru ekki á því að það þyrfti.

Í málinu var deilt um það hvort skipan Landsréttar á einu bretti hafi brotið gegn ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu um að dómstól sé komið á fót með lögum eða í samræmi við lög. MDE hafði áður komist að þeirri niðurstöðu, það var í mars í fyrra, að svo hefði ekki verið en ríkið fór þess á leit að yfirdeild MDE tæki málið fyrir. Dómur MDE hafði áhrif á fjóra dómara, sem fyrrverandi dómsmálaráðherra hækkaði á lista dómnefndar um hæfni dómaraefna, en þrír þeirra hafa hlotið skipun á ný.

Hæstiréttur fær pillu í dómi réttarins. Í dómi Hæstaréttar í málinu var því slegið föstu að skipan dómaranna fjögurra hefði orðið gild að lögum og að þrátt fyrir annmarka á skipan dómaranna fjögurra hefði sakborningurinn í málinu notið réttlátrar málsmeðferðar. Um var að ræða játningarmál vegna umferðarlagabrota.

Þegar kemur að skipan í embætti eða stöður hefur það löngum verið afstaða Hæstaréttar að rétturinn geti ekki ógilt þá skipan stjórnvalda. MDE telur þá venju bagalega. Með því grafi rétturinn að hluta undan mikilvægi eðlislægt hlutverks síns samkvæmt þrígreiningu ríkisvaldsins.

„Í öðru lagi, í ljósi mikilvægis og afleiðinga málsins, og þess grundvallarhlutverks sem dómstólar leika í lýðræðis- og réttarríkjum, þá tók málið ekki aðeins til þeirra dómaraefna sem sniðgengin voru heldur einnig til almennings alls,“ segir í niðurstöðu MDE.

Ekki er skylt samkvæmt dóminum að taka upp öll mál Landsréttar sem eru sambærileg því sem undir var í Strasbourg. Þess í stað er lagt á ríkið að finna leiðir til að tryggja að mál sem þetta geti ekki endur tekið sig.

Í svörum við spurningum dómara MDE sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður mannsins, að skjólstæðingur sinn hygðist ekki óska eftir endurupptöku á máli sínu. Síðar meir, að því fram kemur í dóminum, óskaði hann þess að sú fullyrðing hans yrði felld niður en ekki var tekið mark á því.