Óveðursský hrannast upp yfir alþjóðasviðinu eftir því sem merki um yfirvofandi viðskiptastríð brjótast fram. Tollastríð milli Bandaríkjanna, Kína og jafnvel Evrópu gæti haft alvarlegar efnahagslegar afleiðingar í för með sér og bitnað verst á smáum ríkjum á borð við Ísland.

Viðskiptastríð lýsir sér þannig að ríki reyna að koma höggi á utanríkisviðskipti hvers annars með tollum og innflutningskvótum. Eitt ríki leggur tolla á annað ríki til að vernda innlenda framleiðslu eða til að bregðast við ósanngjörnum viðskiptaháttum.  Það ríki svarar í sömu mynt og þannig vindur það upp á sig.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lagði háa tolla á sólskildi og þvottavélar í janúar síðastliðnum, en helst bitna tollarnir á innflutningi þessara vara frá Kína. Fyrr í þessum mánuði samþykkti Trump 25% toll á innflutt stál og 10% toll á ál frá helstu viðskiptalöndum Bandaríkjanna. Þá kynnti Bandaríkjaforseti refsitolla, sem taka brátt gildi, á yfir þúsund innflutningsvörur frá Kína upp á 50-60 milljarða dollara og takmarkanir á fjárfestingum Kínverja í Bandaríkjunum vegna hugverkaþjófnaðar þeirra í Bandaríkjunum.

Trump-tollarnir svokölluðu hafa verið rökstuddir út frá því að þeir eigi að vernda bandaríska framleiðslu, rétta af viðskiptahalla Bandaríkjanna og auka atvinnustigið í landinu. Var það meðal þess sem Trump lofaði að gera, kæmist hann í stól forseta og var hluti af stefnu hans um að setja Bandaríkin í forgang (e. put America first ).

Hallinn, sem er sá stærsti í heiminum, nam 566 milljörðum dollara á síðasta ári, en vöruskiptahallinn nam 810 milljörðum dollara. Yfir helming af þeim halla má rekja til viðskiptahalla við Kína, sem Trump hefur ítrekað sakað um ósanngjarna viðskiptahætti. Einnig hafa tollarnir verið rökstuddir með vísan í lög um þjóðaröryggi, en ríkisstjórn Trumps hefur sagt að Bandaríkin gætu ekki framleitt nógu mörg vopn eða farartæki ef til stríðsátaka kæmi. Þá hefur Trump sagt að með tollum sé hann einfaldlega að „spegla“ aðgangshindranir fyrir bandarískar vörur á alþjóðamörkuðum.

Evrópusambandið, sem er annar stærsti útflytjandi stáls til Bandaríkjanna á eftir Kanada, hefur gefið það út að það muni svara tollum Trumps af hörku með gagntollum á bandarískar vörur á borð við viskí, Levi’s gallabuxur og Harley Davidson mótorhjól. Því hefur Trump svarað með því að hóta tollum á evrópska bíla, en einnig hefur hann viðrað hugmyndir um tolla á mexíkóska bíla. Evrópusambandið, Kanada, Mexíkó, Ástralía, Suður-Kórea, Brasilía og Argentína hafa fengið undanþágu frá tollum á ál og stál þar til 1. maí næstkomandi. Hvorki Ísland né Noregur eru þar á meðal.

Kínversk stjórnvöld hafa sömuleiðis sagst reiðubúin að svara tollum Trumps með  „nauðsynlegum aðgerðum“. Hingað til hafa viðbrögð Kínverja verið afar takmörkuð. Þeir hafa boðað tolla upp á 3 milljarða dollara á 128 innflutningsvörur frá Bandaríkjunum, meðal annars stálpípur, ávexti, vín og svínakjöt. Þá hafa Kínverjar einnig hótað að hægja enn frekar á kaupum sínum á bandarískum ríkisskuldabréfum og jafnvel hætta að lána Bandaríkjamönnum pening.

Fjármálamarkaðir tóku illa í þessa atburðarás – ekki síst eftir að Trump sagði á Twitter að „viðskiptastríð eru góð, og auðveld að sigra“ – og lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur í vestri og austri vegna ótta fjárfesta við alþjóðlegt viðskiptastríð. Einnig tók verð á gulli kipp, en eftirspurn eftir gulli eykst gjarnan þegar blikur eru á lofti í efnahagsmálum og stjórnmálum stórvelda. Samkvæmt IFS Greiningu virðast hlutabréfamarkaðir þó hafa náð vopnum sínum aftur.

Gríðarleg óvissa

Ljóst er að mikið er í húfi fyrir Bandaríkin og Kína ef til viðskiptastríðs kæmi, en það veltur á viðbrögðum Kínverja á komandi misserum.

Kína er framleiðslumiðstöð með útflutningsdrifið hagkerfi sem er mjög háð Bandaríkjamarkaði. Kínverski seðlabankinn kaupir dollara af kínverskum útflutningsfyrirtækjum í skiptum fyrir júan til að halda júaninu veiku gagnvart dollarnum og drífa áfram útflutningsvöxtinn. Seðlabankinn byggir þannig upp varaforða af dollurum sem hann fjárfestir síðan í bandarískum ríkisskuldabréfum. Þannig lánar Kína fé til stærsta hagkerfi heims, sem á móti kaupir kínverskar vörur á lágu verði.

Kína er stærsti lánardrottinn Bandaríkjanna og á alls 1,2 billjónir dollara af skuldum bandaríska ríkisins. Kínversk stjórnvöld hafa hótað að bregðast við tollum Trumps með því að hætta að kaupa bandarísk ríkisskuldabréf. Það gæti þó styrkt júanið gagnvart dollarnum og bitnað á útflutningi og hagvexti í Kína. Gangi Kínverjar svo langt að þeir selji bandarísk ríkisskuldabréf mun það koma höggi á dollarann, minnka viðskiptaafgang Kína við Bandaríkin og rýra verulega virði þeirra bandarísku ríkisskuldabréfa sem eftir eru í safni Kínverja.

Ríkissjóður Bandaríkjanna hefur þar að auki ekki efni á veikari eftirspurn eftir bandarískum ríkisskuldum frá sínum helstu kaupendum. Bandaríska ríkið þarf að gefa út skuldabréf fyrir um billjón dollara í ár til að fjármagna vaxandi ríkishalla vegna aukinna ríkisútgjalda og skattalækkana. Bandaríski seðlabankinn er nú þegar að draga úr kaupum sínum á bandarískum ríkisskuldabréfum og minnka efnahagsreikning sinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .