Brotið er á starfsmönnum kínversks fyrirtækis sem framleiðir vörur fyrir Apple, að því er kemur fram í skýrslu samtaka sem fylgjast með aðstöðu verkafólks í Kína. Um er að ræða verksmiðjur fyrirtækisins Pegatron, en Apple hefur undanfarið aukið mjög viðskipti við fyrirtækið m.a. vegna brota fyrirtækisins Foxconn á starfsmönnum og slæmrar fjölmiðlaumfjöllunar um fyrirtækið.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal er Pegatron sakað um að brjóta reglur um öryggi starfsmanna og umhverfisvernd, auk þess sem fyrirtækið haldi eftir launum starfsmanna og vinnuskilríkjum, en án þeirra geta starfsmennirnir ekki unnið annars staðar.

Ef satt reynist er bæði um að ræða brot á kínverskum lögum og á samningum sem Apple gerir við fyrirtæki sem framleiða vörur fyrirtækisins. Apple segir í tilkynningu að frá árinu 2007 hafi fimmtán sinnum verið farið yfir aðstæður í verksmiðjum Pegatron, þar á meðal í óvæntum eftirlitsferðum undanfarna 18 mánuði. Apple viðurkennir að í einhverjum tilvikum hafi skilríkjum starfsmanna verið haldið eftir og hefur krafist þess að Pegatron hætti því samstundis.