Vefsvæði Samtaka atvinnulífsins á myndbandsvefnum Vimeo hefur verið lokað. Svo virðist sem einhver hafi brotist inn á vefsvæðið, eytt öllum myndböndum sem þar var að finna og lokað svæðinu. Hörður Vilberg upplýsingafulltrúi SA segist ekki vita hver stendur á bak við þetta innbrot á vefsvæðið. Hann hefur ekki fengið svör frá forsvarsmönnum Vimeo hvernig á því standi að vefsvæðinu var eytt.

„Einhver virðist hafa haft litla þolinmæði fyrir þessum málflutningi,“ segir Hörður og vísar þar til auglýsingarinnar Betri lífskjör, sem samtökin hafa birt í sjónvarpi undanfarið. Jafnframt var hægt að nálgast auglýsinguna á Vimeo þaðan sem henni var dreift um vefinn, m.a. í gegnum samfélagsmiðla.

„Nú kemst ég ekki inn á svæðið okkar lengur. Við þurfum bara að opna nýjan aðgang og hlaða aftur upp auglýsingunni og fleira efni sem þarna var að finna,“ segir Hörður.

Auglýsingarnar voru harðlega gagnrýndar og meðal annars sakaði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Samtök atvinnulífsins um sögufölsun. Sagði Gylfi meðal annars að í auglýsingunum væri „með sérlega ósmekklegum hætti látið í það skína að kröfur launafólks um launahækkanir séu ástæða hárrar verðbólgu á Íslandi.“