Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ er farið yfir helstu efnahagsleg áhrif af styttingu framhaldsnáms.

Í skýrslunni kemur fram að á Íslandi er heldur lágt útskriftarhlutfall ef miðað er við hin Norðurlöndin. Á Íslandi ljúka aðeins 45% nemenda námi sínu á tilskildum tíma, og aðeins 58% hafa lokið náminu á sex árum. Sérstaklega er árangri íslenskra pilta ábótavant, en aðeins 38% þeirra útskrifast á tilsettum tíma.

Í Finnlandi og Svíþjóð útskrifast hins vegar 71-72% framhaldsskólanámi tilsettum tíma, eða þremur árum, og 80-82% á fimm árum. Nær enginn munur er á hlutfalli útskrifaðra pilta og stúlkna.

Í skýrslunni segir einnig að þótt menntun sé í sjálfu sér jákvæð, sama á hvaða aldri það er sem fólk sækir sér hana - en sé mikið um eins og tíðkast hér og nú að fólk innriti sig í nám en útskrifist ekki verður hvorki meira né minna en efnahagslegt tap af gjörningnum. Á þetta við bæði viðkomandi einstaklinga og þjóðfélagið í heild.

Bein efnahagsleg áhrif styttingarinnar

Stytting náms hefur þann yfirlýsta tilgang að straumlínulaga og flýta fyrir námi á Íslandi. Styttingin sé því í það minnsta ekki yfirlýstur niðurskurður. Þrátt fyrir það munu sparast einhverjir 2-3 milljarðar króna, sem eiga að gagnast öllum skólakerfinu viðkomandi sem og þjóðfélaginu sjálfu. Einnig ættu kennarar að njóta hærri launa fyrir vikið, og skattgreiðendur ættu að þurfa að greiða lægri framlög til framhaldsmenntunar gegnum ríkið.

Styttingin mun aukreitis hafa talsverð skammtímaáhrif á efnahagslífið þar eð fyrrum fjórða árs nemendur koma ári fyrr en ella út á vinnumarkaðinn. Innspýtingin mun skila 0,7-0,85% hagvexti eða um 14-17 milljarða aukningu á landsframleiðslu, samkvæmt spám Hagfræðistofnunarinnar.

Mögulegar mótvægisaðgerðir

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að styttingin muni líkast til draga úr brottfalli úr framhaldsskólum. Á sama tíma mun námsálag aukast og munu því margir nemendur kjósa að einblína á námið í stað þess að vinna hlutastarf til hliðar með því.

Mögulega þyrfti því að koma á fót mótvægisaðgerðum sem miðuðu að því að hindra brotthvarf þeirra nemenda sem standa í fjárhagsörðugleikum og neyðast til að vinna með skóla. Sem dæmi er nefnt að sparnaðurinn sem hlýst af styttingunni gæti verið notaður til að veita þessum hópi námsmanna styrki eða annars konar fjárbætur.