*

sunnudagur, 8. desember 2019
Innlent 11. júlí 2019 09:57

Brottfarartímar Wow í Keflavík enn lausir

Þvert á væntingar hafa hvorki Icelandair né önnur félög fyllt í skarð Wow svo rými er fyrir nýtt félag.

Ritstjórn
Enn eru lausir brottfarartímar véla Wow air á Keflavíkurflugvelli.
Aðsend mynd

Í byrjun næstu viku munu flugfélög þurfa að staðfesta umsóknir um afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir næsta vetur að því er Túristi greinir frá. Það ætti þá að koma í ljós á næstu vikum hve mikill samdráttur verður í flugi til landsins yfir vetrarmánuðina í kjölfar falls Wow air.

Eins og staðan er núna eru helstu brottfarartímarnir sem Wow air nýtti enn lausir, en eins og sagt var frá í fréttum í gær hafa innlendir og erlendir aðilar, með tengsl við Wow air og Ryanair, hafið undirbúning á stofnun nýs lággjaldaflugfélags hér á landi.

Einnig hefur þó komið fram að helstu verðmætin úr þrotabúi Wow air hafa þegar verið seld, sem og að Skúli Mogensen stofnandi félagsins kemur ekki að nýja félaginu.

Þrátt fyrir væntingar um að við gjaldþrot Wow myndu erlend félög fylla í skarðið sem og Icelandair hefur það ekki gengið eftir, bæði hafa erlend félög eins og Delta og easyJet skorið niður í flugáætlun sinni hingað til lands, sem og Icelandair lent í vanda við að halda sínum áætlunum vegna kyrrsetningar Boeing 737 Max véla sinna.