Flutningur á móðurfélagi Bakkavarar héðan til Bretlands og slit á íslenska móðurfélaginu hefur engin áhrif hér. Þrír starfsmenn Bakkavarar hafa unnið hér um nokkurt skeið á skrifstofu fyrirtækisins í Reykjavík. Tekjur Bakkavarar verða að öllu leyti til á erlendum mörkuðum og greiðir fyrirtækið skatt þar. Ekkert er greitt af starfseminni hér og hefur flutningurinn utan því lítil sem engin áhrif.

Þrátt fyrir þetta mun ekki stefnt að því að hætta starfsemi Bakkavarar hér, samkvæmt upplýsingum frá Bakkavör. Skrifstofan var áður í Ármúla og við Tjarnargötu. Bakkavör leigir nú skrifstofuaðstöðu við Thorvaldsenstræti.

Stærsti vinnuveitandinn - í útlöndum

Bakkavör var í 1. sæti á lista yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins, samkvæmt árlegri samantekt Frjálsrar verslunar í fyrra. Í umfjöllun um fyrirtækið kemur fram að veltan hafi numið 293,2 milljörðum króna og nam hagnaður eftir skatta 625 milljónum króna. Eftir skatta nam tapið hins vegar rúmum 2,4 milljörðum króna. Starfsmenn (meðalstarfsmannafjöldi) voru 18.100 árið 2010 og var fyrirtækið jafnframt stærsti vinnuveitandinn. Af einstökum fyrirtækjum með rekstur alfarið hér á landi var Reykjavíkurborg með 7.700 starfsmenn.

Bakkabræður kaupa fyrir fjóra milljarða

Á aðalfundi Bakkavarar í gær var ákveðið að slíta móðurfélaginu hér, skrá félagið í Bretlandi og stofna móðurfélagið Bakkavor Holdings Limited í Bretlandi.

Þá var samþykkt að gefa út nýtt hlutafé sem bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir fá að kaupa. Þeir fá að eignast 25% hlut í félaginu og greiða fyrir hlutinn fjóra milljarða króna.