Árin 2005 og 2006 var flutningsstraumur fólks frá útlöndum óvenju mikill hér á landi og árið 2006 voru aðfluttir umfram brottflutta í flutningum til og frá landinu 5.255 manns. Ef einungis er litið til erlendra ríkisborgara nam þessi tala 5.535 manns árið 2006, samkvæmt því sem segir á vef Hagstofu Íslands.

Flutningsjöfnuður meðal íslenskra ríkisborgara var aftur á móti neikvæður; brottfluttir voru 280 fleiri en aðfluttir.  Árið 2007 dró nokkuð úr flutningum til landsins og nam fjöldi aðfluttra umfram brott flutta erlenda ríkisborgara 3.352 einstaklingum en brottfluttir íslenskir ríkisborgarar voru 255 fleiri en aðfluttir.

Á vef Hagstofunnar segir það mikla þensluskeið sem ríkt hefur hér á landi undanfarin ár dró til sín mun fleiri karla en konur frá útlöndum. Þannig fluttu hingað meira en tvöfalt fleiri karlar en konur árin 2005 og 2006. Þetta var mikil breyting frá því sem verið hafði tvo síðustu áratugi þar á undan en þá komu alla jafna fleiri konur en karlar til landsins. Árið 2007 má aftur merkja breytingu í þessu tilliti en þá var flutningsjöfnuður meðal karla og kvenna nær jafn (1.558 meðal karla og 1.539 meðal kvenna).

Allmiklar breytingar hafa líka orðið á flutningum innanlands undanfarin ár. Á árinu 2007 voru flutningar innanlands 58.136 talsins. Þetta er nokkur fjölgun frá árinu áður en þá voru innanlandsflutningar 51.060. Áberandi breytingar hafa orðið á flutningum milli landsvæða undanfarin ár. Mikið hefur dregið úr því forskoti sem höfuðborgarsvæðið hafði á aðra landshluta. Ef einungis er litið til innanlandsflutninga flytjast nú fleiri frá höfuðborgarasvæðinu en til þess, flutningsjöfnuður þar er nú -1,8 á hverja 1.000 íbúa (á aðflutningssvæði) árið 2007 samanborið við  1,4 árið áður.

Eins og undanfarin ár draga Suðurnesin til sín flesta íbúa en þar var flutningsjöfnuður  50 á hverja 1.000 íbúa. Flutningsjöfnuður er jákvæður á Suðurlandi og Vesturlandi og munar þar mestu um flutninga til sveitarfélaga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.  Líkt og undanfarin ár var flutningsjöfnuður í innanlandsflutningum neikvæður á öllum þeim landsvæðum sem ekki liggja að höfuðborgarsvæðinu. Eins og mörg undanfarin ár fluttust hlutfallslega fleiri frá Vestfjörðum en nokkru öðru landsvæði; þar var flutningsjöfnuður -36,7 á hverja 1.000 íbúa.

Athugun á flutningsjöfnuði í millilandaflutningum til einstakra landsvæða leiðir í ljós talsvert mikla breytingu frá síðasta ári, einkum þó á Austurlandi. Í hlutfalli við íbúafjölda fluttu mun fleiri einstaklingar til Austurlands frá útlöndum en til annarra landsvæða árin 2004-2006. Nú er þessu öfugt farið og flutningsjöfnuður í millilandaflutningum er nú neikvæður á Austurlandi (-93,4 á hverja 1.000 íbúa). Árið áður var flutningsjöfnuður í millilandaflutningum þar 102,5 á hverja 1.000 íbúa. Á öllum öðrum landsvæðum er flutningsjöfnuður frá útlöndum jákvæður, en hæstur á höfuðborgarsvæði og á landsvæðum sem liggja að höfuðborgarsvæði.