Árið 2014 fluttust 1.113 fleiri til landsins en frá því. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands .

Það eru heldur færri en í fyrra, þegar 1.598 fleiri fluttust til landsins heldur en frá því. Á árinu 2014 fluttust 6.988 til landsins, samanborið við 7.071 á árinu 2013.

Alls fluttust 5.875 manns frá Íslandi árið 2014 og er það í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem að brottfluttum fjölgar á milli ára, en árið 2013 fluttust 5.473 manns frá landinu. Fjöldi brottfluttra frá Íslandi árið 2014 er þó langt frá því að vera nálægt því sem var árið 2009, þegar 10.612 fluttust erlendis.

Íslenskir ríkisborgarar voru 922 fleiri en erlendir í hópi brottfluttra, eða 3.400 á móti 2.478. Íslenskir ríkisborgarar voru aftur á móti færri meðal aðfluttra en erlendir, 2.640 á móti 4.348. Alls fluttust því 760 íslenskir ríkisborgarar úr landi umfram aðflutta, á meðan aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.873 fleiri en brottfluttir.