Frá því að Seðlabanki Íslands hóf reglubundna sölu á gjaldeyri, þann 14. september síðastliðinn, hefur hann selt gjaldeyri fyrir alls 55 milljarða króna. Þar af nam sala í október um 38 milljörðum. Þegar tilkynnt var um áformin kom fram að Seðlabankinn væri reiðubúinn að selja fyrir allt að 40 milljarða króna í reglulegum viðskiptum til ársloka 2020.

Af þeim 55 milljörðum eru um sautján milljarðar vegna reglubundinnar gjaldeyrissölu og telst mismunurinn, um 38 milljarðar, því til óreglubundinnar sölu. Í nóvember hyggst Seðlabankinn selja viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði 63 milljónir evra, andvirði um tíu milljarða króna, í reglubundinni sölu.

Ef litið er fram hjá október og septembermánuði, hefur nettó gjaldeyrissala Seðlabanka Íslands numið tæplega 34 milljörðum króna á þessu ári. Á fyrstu átta mánuðum ársins seldi Seðlabankinn gjaldeyri fyrir um 43 milljarða, en keypti gjaldeyri fyrir 9 milljarða. Í september og október á síðasta ári voru gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans nær engin.

Eðlismunur er á markmiði reglubundinnar gjaldeyrissölu og óreglubundinnar. Markmið reglubundinnar sölu er að sögn Seðlabankans að auka dýpt gjaldeyrismarkaðarins og að bæta verðmyndun. „Aukið og stöðugt framboð gjaldeyris ætti að öðru óbreyttu að leiða til aukins stöðugleika á markaðinum,“ segir í tilkynningu. Enn fremur kemur fram að „reglubundin gjaldeyrissala hefur ekki áhrif á yfirlýsta stefnu bankans um að grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum eftir því sem hann telur tilefni til.“ Með öðrum orðum mun reglubundin sala ekki hafa áhrif á óreglubundna sölu Seðlabankans.

Fullt tilefni til inngripa en skýra má stefnuna betur

„Seðlabankinn þarf að taka hraustlega til hendinni í óreglulegri gjaldeyrissölu þegar miklar flæðishreyfingar verða á markaði sem eru ekki tilkomnar vegna sveiflna í vöru- og þjónustuviðskiptum eða öðru slíku. Það er sjálfsagt að Seðlabankinn beiti þeim skotfærum sem hann hefur þegar þannig stendur á,“ segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, spurður út í inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði.

Bendir hann enn fremur á að miklar gjaldeyrissveiflur síðustu mánuði séu líklega tilkomnar að stórum hluta vegna þess að erlendir fjárfestar hafi að undanförnu selt íslensk ríkisskuldabréf í miklu magni. „Þegar svoleiðis stendur á og markaðurinn er veikur fyrir, þá finnst mér eðlilegt að Seðlabankinn komi á móti,“ segir Jón Bjarki.

Jón Bjarki segir að inngrip Seðlabankans hafi enn sem komið er eðlilegar skýringar. Hann myndi hins vegar vilja sjá Seðlabankann beita stjórntækjum sínum á skuldabréfamarkaði og vitnar þar til magnbundinnar íhlutunar. Enn fremur væri ákjósanlegt að Seðlabankinn væri skýrari í skilaboðum sínum hvað varðar aðgerðir Seðlabankans. „Ég held að það væri mjög gagnlegt og þarft fyrir stjórnendur bankans [Seðlabanka Íslands] að koma fram fyrr frekar en seinna og útskýra þennan mun,“ segir Jón Bjarki og vitnar þar til mismunar á umfangi reglubundinnar gjaldeyrissölu og óreglubundinnar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .