Hverfi WOW air af flugmarkaði gæti það leitt til þess að landsframleiðsla myndi dragast saman um á bilinu 0,9 til 2,7% á einu ári. Þetta kemur fram í rannsókn sem ráðgjafarfyrirtækið Reykjavík Economics vann að beiðni flugfélagsins um efnahagsleg áhrif félagsins á íslenskan þjóðarbúskap. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Í rannsókninni segir einnig að brotthvarf WOW air myndi þýða að gengi krónunnar veiktist, sem kæmi fram í hækkun innflutningsverðs og aukinni verðbólgu, atvinnumissi fyrir þúsundir manna og afkomurýrnun hjá hótelum, veitingahúsum og öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum.

Í skýrslunni er auk þess bent á að brotthvarf WOW air af markaðinum yfir Atlantshafið muni ekki endilega þýða að önnur flugfélög hefji flug yfir hafið með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Það sé allt eins líklegt að þau félög muni fljúga beint á milli Evrópu og Ameríku án viðkomu á Íslandi.