Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri GAMMA og annar stofnenda félagsins, lét af störfum hjá félaginu eftir endurskoðun á erlendri starfsemi félagsins. Skrifstofu félagsins í Zürich í Sviss var lokað í febrúar, innan við ári frá opnun hennar. „Áherslubreytingin er einna helst að draga aðeins úr umsvifunum erlendis og forgangsraða án þess að breyta stefnunni mjög mikið,“ segir Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA.

Kostnaður í skrifstofum erlendis

GAMMA hefur frá árinu 2015 rekið skrifstofu í London, sem nú er í Mayfair-hverfinu. Á síðasta ári opnaði félagið skrifstofu á Manhattan í New York. Fimm starfsmenn starfa hjá GAMMA í London og tveir í New York af um þrjátíu starfsmönnum félagsins. Fréttablaðið greindi frá því í október að rekstrarkostnaður GAMMA hefði aukist um 65% á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 miðað við sama tímabil árið 2016 og hagnaður hefði dregist saman um 8,5% milli ára og numið 411 milljónum króna. „Það kostar sitt að vera með skrifstofur erlendis. Það er alveg ljóst,“ segir Valdimar.

Gísli verður áfram stærsti hluthafi félagsins. Hann hefur frá árinu 2015 verið búsettur erlendis og leitt uppbyggingu á erlendri starfsemi félagsins. Rúmum mánuði áður en Gísli hætti hjá GAMMA var tilkynnt að Gísli léti af störfum sem stjórnarformaður félagsins og tók þá formlega við erlendri starfsemi félagsins. Ár er síðan Gísli hætti sem forstjóri GAMMA og varð stjórnarformaður félagsins. Í tilkynningu samhliða starfslokunum kom fram að Gísli myndi nú einbeita sér að eigin fjárfestingum og fjölskyldu sinnar, stjórnarsetu í fyrirtækjum og verkefnum á sviði menningarmála.

Tíu ára afmæli gott tækifæri til breytinga

Valdimar bendir á að GAMMA verði tíu ára í þessu ári. „Það er gott tækifæri fyrir félagið til að skerpa á sínum áherslum. Ég held að það sé eðlilegt í rekstri hvers fyrirtækis að það þurfi að endurmeta stöðuna og skoða hvað hafi verið vel gert,“ segir Valdimar. „Ég held að tækifærið til að breyta til hafi verið núna. Fyrirtækið er komið vel á legg, því hefur gengið vel og búið að koma mörgum sjóðum af stað, erlendum og innlendum,“ segir Valdimar. „Við höfum aldrei hætt að leggja áherslu á innlenda starfsemi og reksturinn hérna heima hefur gengið mjög vel,“ bendir Valdimar á.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .