Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sagði í nýársávarpi sínu að hann muni ekki taka neinar áhættur með breskt efnahagskerfi á nýju ári. Unnið verði að því að lækka verðbólgu og jafna viðskiptahalla.

,,Þau vandamál sem hafa átt sér stað á lánamörkuðum í Bandaríkjunum eru nú helsta áskorun allra og það er forgangsatriði að koma þessu í eðlilegt horf. Ég hætti ekki stöðugleikanum og tek engar áhættur," sagði Brown í ávarpi sínu sem sent var með tölvupósti í gær.

Bretland hefur ekki farið varhluta af þeim erfiðleikum sem ríkt hafa á lánamörkðum í Bandaríkjunum. Lánastofnanir í Englandi hafa hækkað vexti og erfitt er fyrir fólk að fá hagstæð lán á fasteignir. Þá hefur fasteignarverð hækkað töluvert og hefur breski seðlabankinn varað við hækkandi verðbólgu.

Í nýlegri könnun kemur fram að breski Íhaldsflokkurinn myndi nú fá um 40% fylgi á meðan Verkamannaflokkurinn fengi um 35% fylgi. Þetta hefur valdið forystumönnum Verkamannaflokksins áhyggjum og í Sunday Times í gær sagði Jack Straw, dómsmálaráðherra að flokkurinn þyrfti að einbeita sér að því að halda efnahag landsins stöðugm, ætli hann sér að vera við völd áfram. Brown þarf þó ekki að boða til kosninga fyrr en árið 2010.

Nýársheit flokkanna

Brown sagði að Verkamannaflokkurinn myndi taka réttar ákvarðanir, ekki bara á næsta ári heldur næstu árin.Unnið yrði að því að halda verðbólgu í skefjum, lækka stýrivexti og styrkja efnahagslífið.

Hann sagði að árið 2008 yrðu áberandi breytingar á almannagæðum s.s. ný orkulöggjöf, lög um losun gróðurhúsaloftegunda og breytingum í heilbrigðisþjónustu, menntamálum og samgöngum.

Leiðtogi Íhaldsflokksins, David Cameron, tók líka upp á því að senda áramótaávarp sitt með tölvupósti. Hann tók fram að nýársheiti flokksins yrði að auka valfrelsi einstaklinga, styrkja fjölskylduna, gera samfélagið ábyrgt í umhverfismálum og gera landið „öruggara og grænna." Hann lagði sérstaka áherslu á fjölskylduna annars vegar og umhverfismál hins vegar.