Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, varaði við því að heimurinn kunni að fara inn í fjármálalega verndarstefnu sem í framhaldinu kunni að leiða af sér almenna verndarstefnu sem hafi slæm áhrif á milliríkjaviðskipti. Þetta kemur fram í WSJ, en Brown er meðal þjóðarleiðtoga sem taka þátt í aðalfundi World Economic Forum í Davos í Sviss.

Leiðtogar 20 ríkja heims, G20, hittast í Lundúnum í apríl og Brown segir að þessi hópur verði að fjalla um hættuna af fjármálalegri verndarstefnu.

Stephen Green, stjórnarformaður HSBC, stærsta banka Bretlands að markaðsvirði, viðraði svipuð sjónarmið fyrr í vikunni. Hann sagði að milliríkjaviðskipti gætu liðið fyrir það ef bankar hættu að lána í þróunarríkjum.