Danska blaðið Børsen fjallar í dag um kaup FL Group á Sterling og ræðir meðal annars við Hannes Smárason, forstjóra FL Group, að því er fram kemur hjá greiningardeild Kaupþings banka.

Hannes Smárason segir við blaðið, það komi meðal annars til greina að selja Sterling til easyjet eða mynda náið samstarf á milli félaganna. Hann segir einnig skandinavíska markaðinn góðan kost fyrir lággjaldaflugfélög og sameinuð myndu Sterling og easyjet verða stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu.

Blaðið spyr Hannes einnig út í kaupin á Finnair og segist hann ekki líta á Finnair sem samkeppnisaðila lággjaldaflugfélaganna, heldur sé svipað Icelandair. Fyrirtæki sem þjóni ákveðnum markaði og telur hann félögin tvö eigi vel saman. Finnair þjóni Asíu vel en Icelandair sé sterkara á flugleiðum til Bandaríkjanna. ?Að hans sögn hefur FL Group jafnframt áhuga á því að skoða Finnair nánar ef til þess kemur að finnska ríkið hyggist losa um meirihluta eignarhald sitt á félaginu," segir greiningardeildin.