„Það er ógaman að fljúga með Sterling þessar vikurnar.”

Þannig hefst frétt á fréttavef Børsen í dag þar sem fjallað er um seinkanir sem orðið hafa á flugferðum Sterling, sem er í eigu Northern Travel Holding, en það er í meirihluta eigu Fons, félags Pálma Haraldssonar, og Sunds.

Fyrr í þessum mánuðin fullyrti Børsen að þessir aðilar vildu losna við hlut sinn í Sterling, en því neitaði Pálmi staðfastlega og kvaðst telja danska fjölmiðla reyna vísvitandi að skaða íslenska fjárfesta með umfjöllun sinni.

Í fréttinni í dag segir m.a. að í seinustu viku hafi á milli 50-60% af brottförum flugvéla Sterlings frá Kastrup-flugvelli verið á eftir áætlun og á mánudag seinkaði 24 flugum af 35. Seinkanirnar stafa af því að beðið er eftir nýjum flugvélum.

Ver vinnudeginum í að biðjast afsökunar

„Við pöntuðum fyrir nokkrum mánuðum tvær nýjar flugvélar. Þær eru ókomnar því að framleiðandinn hefur ekki getað skilað á réttum tíma. Við áttum að fá þær í mars og þær eru enn ókomnar,” segir talsmaður flugfélagsins, Rulle Grabow Westergaard og fullyrðir að venjulega séu 87% af flugferðum félagsins á réttum tíma.

Sterling hafi reynt að leigja nokkrar vélar þangað til nýju vélarnar verða afhentar en það hafi reynst ómögulegt undanfarinn mánuð. Hvarvetna séu lausar vélar í útleigu.

Þó að floti Sterling telji 30 þotur geti það sett ótvírætt strik í reikninginn að tvær vanti, ekki síst þegar verkföll hafa hrjáð flugvelli í Noregi á sama tíma. Hún kveðst hafa eytt drjúgum tíma á Kastrup flugvelli undanfarna daga til að róa óánægða farþega og biðja þá afsökunar á töfunum.