Fjárfestingarsjóðurinn Brú II Venture Capital hefur keypt hlut í breska fyrirtækinu Voice Commerce Group, sem er upplýsingatæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun lausna fyrir greiðslumiðlun á Netinu og netviðskipti með farsíma.

Voice Commerce Group var stofnað árið 2005 og hefur m.a. þróað veflausnina Engage, sem styður sýndarsamfélög á Netinu. Jafnframt á fyrirtækið dótturfélagið VoicePay. Það veitir þjónustu sem nýtir nýjustu tækni við raddauðkenni til að tryggja greiðsluöryggi á Netinu.

Nick Ogden, stofnandi og framkvæmdastjóri Voice Commerce Group, hefur verið frumkvöðull á sviði netviðskipta frá árinu 1985. Hann stofnaði m.a. fyrirtæki sem tengdi Ermarsundseyjar við Netið árið 1993 og leiddi það síðan til stofnunar fyrstu netverslunar í Evrópu árið 1994.

Ogden stofnaði síðar gjaldeyrisviðskiptaþjónustuna WorldPay sem Royal Bank of Scotland keypti árið 2000. Ogden hefur tvívegis verið í lokahópi þeirra sem tilnefndir hafa verið til frumkvöðlaverðlauna Ernst & Young í Bretlandi.

Brú II Venture Capital verður einn stærsti hluthafi fyrirtækisins og mun Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule Investments, taka sæti í stjórn Voice Commerce Group. Thule Investments er fjárfestingarfyrirtæki sem annast m.a. umsýslu og rekstur fjárfestingarsjóðanna Brú Venture Capital og Brú II Venture Capital.

„Voice Commerce Group er gott fyrirtæki með öflugar lausnir fyrir markað þar sem tækifæri til vaxtar eru mikil. Nick Ogden hefur jafnframt mikla reynslu og þekkingu á þessum markaði. Fyrri afrek hans sýna að hann er ekki einungis fundvís á góðar viðskiptahugmyndir þegar kemur að viðskiptum á Netinu, heldur getur rekið frumkvöðlafyrirtæki í örum vexti með góðum árangri,“ segir Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule Investments.