Fiskiskipið Blue Wave, sem verið hefur í eigu samnefnds félags, hefur verið selt nýjum eigendum. Fjárfestingasjóðurinn Brú II, sem stýrt er af Thule Investments, fjárfesti í útgerðinni árið 2007.

Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule Investments, segir í samtali við Viðskiptablaðið að undanfarin ár hafi verið unnið að endurbótum á skipi félagsins og bættum rekstri þess. Skipið hefur verið gert út frá Kanaríeyjum og stundað fiskveiðar við strendur Máritaníu og Senegal.

„Síðastliðið haust gerðu stjórnvöld i Máritaníu grundvallarbreytingar á gjaldtöku og kvöðum veiðileyfa. Í kjölfarið myndaðist veruleg óvissa um framtíðarrekstur Blue Wave og annarra skipa sem stunda þar veiðar við sambærilegt regluverk. Þótt ýmislegt bendi til að nýju reglunum verði breytt, ríkir enn mikil óvissa um hvenær og hvort Blue Wave stæði til boða veiðileyfi samkvæmt þeim,“ segir Gísli.

Félag Íslendings kaupir

kex hostel
kex hostel
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nýr eigandi skipsins er Saga Seafood Ltd., sem er í eigu Egils Árnasonar og tengdra aðila. Egill hefur lengi unnið við útgerð við strendur Afríku, m.a. sem útgerðarstjóri Kötlu Seafood um árabil. Gísli segir engin tengsl á milli fyrri eigenda eða stjórnenda Blue Wave og nýrra eigenda. Frágangi og uppgjöri sölunnar er nú að mestu lokið. Kaupverðið er trúnaðarmál en hluti þess er tengdur árangri í rekstri Saga Seafood.

„Verð á fiskiskipum sem þessum hefur lækkað undanfarið vegna reglubreytinganna í Máritaníu,“ segir Gísli. „Nokkur skip sömu tegundar og Blue Wave eru til sölu og nýverið seldi Samherji útgerð sína á sama stað. Verð skipa hafa lækkað frá fyrri verðvæntingum.“

Gísli segir samninginn hins vegar tryggja það að lágmarksverð verði jafn hátt eða hærra en sem nemur söluvirði annarra skipa sömu tegundar síðustu mánuði.

„Miðað við reynslu- og rekstrarsögu kaupandans eru væntingar af sölunni háar. Niðurstaða sölunnar er mjög ásættanleg, en uppgjörið verður tekið inn í sex mánaða uppgjör sjóðsins sem sent er hluthöfum. Hugsanlega verður færð varúðarfærsla í reikning Brú II, en það verður gert í samráði við endurskoðendur sjóðsins.“

Sigla undir fána Belize

Rekstur og eignarhald skipsins Blue Wave er hagað þannig að skipið, sem er í eigu samnefnds félags er flaggað á Belize, en reksturinn er í aðskildu dótturfélagi. Brú II hafði fjárfest í eignarhaldsfélaginu.

„Þetta er dæmigert í svona rekstri, þ.e. að aðskilja reksturinn frá eigninni. Aðrar skipaútgerðir í alþjóðlegri starfssemi á Íslandi hvort sem er frakt- eða fiskiskip eru með sambærilegan aðskilnað. Fyrir því eru margar gildar viðskiptaástæður.“

Blue Wave er skráð á Jersey, og rekstrarfélag Blue Wave var skráð á Bresku jómfrúareyjunum.

„Fram að hruni 2008 fékk rekstrarfélagið talsvert af sinni þjónustu frá Íslandi, þar á meðal öll bankaviðskipti og bókhaldsþjónustu. Allt bókhald er fært af þriðja aðila og endurskoðað af alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækinu Mazars samkvæmt alþjóðlegum reikniskilavenjum (IFRS). Banki félagsins í dag er RBS (Royal Bank of Scotland), en var til loka árs 2008 Landsbanki Íslands.“

Gísli segir að þar sem útgerð Blue Wave skipsins og verðmætasköpun er að mestu í lögsögu Máritaníu sé reksturinn skattlagður þar í formi veiði- og auðlindagjalds sem óháð sé rekstrarafkomu. „Þessir skattar er umtalsverðir og t.a.m. talsvert hærri flest árin en hefði verið ef útgerðin hefði verið á Íslandi. Allar greiðslur útgerðarinnar til Máritaníu fara til umsjónarmanns þar í landi, sem er skráður umboðsmaður útgerðarinnar gagnvart stjórnvöldum.“