Brú II Venture Capital Fund hefur keypt hlut í VoIP símafyrirtækinu SunRocket, að því er fram kemur í tilkynningu. Þar segir að SunRocket sé ört vaxandi fyrirtæki á sviði VoIP símaþjónustu fyrir almenning.

Fyrirtækið var stofnað árið 2004 og er í dag eitt stærsta VoIP símafyrirtækið í heiminum. Heildarfjárfesting í þessari lotu nam 33 milljónum dollara, eða sem nemur 2,34 milljörðum íslenskra króna og var gerð í samstarfi við BlueRun Ventures, MayField Fund, Varma Mutual Pension Insurance Company, The Grosvenor Fund og fleiri.

Brú II Venture Capital Fund er nýr fjárfestingasjóður sem fjárfestir í óskráðum og ört vaxandi fyrirtækjum. Fjárfestar eru Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf., Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífiðn, Lífeyrissjóður Austurlands, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Saxhóll hf. og Tryggingamiðstöðin.

Brú II er nýr sjóður Brúar, en Brú stýrir tveimur öðrum eignasöfnum: Brú Framtak sem fjárfestir á klakstigi, og eignasafn BVC (Brú I). Eignasöfn Brúar telja félög á Íslandi, Bandaríkjunum og í löndum Evrópusambandsins.