Steingrímur Þór Ágústsson, Arnar Kjartansson og Ólafur Pálsson stofnuðu hlutafélagið Nemar ehf. nýlega. Fyrirtækið miðar að því að veita nýinnrituðum há­ skólanemum aðstoð við að að­ laga sig að háskólaumhverfinu, og brúa bilið milli menntaskólans og háskólans.

Stofnendurnir nema nú hagfræði og viðskiptafræði við Há­skóla Íslands eftir að hafa útskrifast úr menntaskóla. Eftir að hafa byrjað í Háskólanum fannst þeim ganga fremur illa í náminu – eins og menntaskólanámið, sem varði í heil fjögur ár, hefði ekki verið nóg til að búa þá undir háskólanámið.

Steingrímur segir að mikill brestur geti verið milli undirbúnings í menntaskólum og raunveruleikans sem blasir við nemendum þegar þeir mæta loks í Háskólann og þurfa að takast á við þyngra námsefni.

Vantar eitthvað á milli

„Það vantar eitthvað þarna á milli,” segir Steingrímur. „Það er mismunandi hvernig námsuppsetningin er í menntaskólum sem getur leitt af sér misgóðan grunn fyrir háskólanám. Stundum er einhver brestur þarna á milli.”

Til þess að hjálpa fólki sem á erfitt með að aðlaga sig við nýja námsumhverfi munu þeir nýta sér hjálp fólks sem hefur náð góð­ um takti í háskólanáminu.

„Við verðum með eins konar jafningafræðslu, þar sem við ráð­ um fólk sem hefur þegar komið sér vel fyrir í háskólaumhverfinu og treystir sér til að leiðbeina ný­ græðingunum með reynslu sinni og þekkingu.“

Vinna í samstarfi við kerfið

Steingrímur áætlar að fyrirtækið vinni í samstarfi við menntakerfi háskólanna og menntaskólanna til jafns. Þá miða þeir að því að notfæra sér háskólaumhverfið undir námskeiðið sjálft, en vekja athygli á þjónustunni innan veggja menntaskólanna, þar sem kvíðnir útskriftarnemendur gætu nýtt sér þjónustuna sem allra best.

„Ætlunin er að hafa eitthvert samstarf við menntaskólana og fá þá til að kynna starf okkar þar. Einnig stefnum við á að fá að vera í Háskóla Íslands, og nota stofur hjá þeim undir námskeiðin okkar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .