Geri allt slf. og forsvarsmaður félagsins voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmd til að greiða Nýhugsun ehf. tæplega 185 þúsund krónur vegna ógreidds reiknings. Reikningurinn var til kominn vegna uppsetningar á tjaldi fyrir brúðkaupsveislu en tjaldið virðist ekki hafa dugað og því brunuðu brúðkaupsgestir á Shake&Pizza.

Málið á rætur sínar að rekja til vormánaða 2018 en þá sendi fyrirsvarsmaður Nýhugsunar, sem meðal annars rekur þjónustuna Rent-A-Tent, tilboð um verð fyrir uppsetningu og leigu á tjaldi fyrir brúðkaupsveislu. Tjaldið átti að vera 45 fermetrar, níu sinnum fimm, leigan á því var 30 þúsund krónur og kostnaður við uppsetningu 155 þúsund krónur fyrir virðisaukaskatt.

Forsvarsmaður Geri allt gekk að tilboðinu en daginn eftir var honum boðið smærra tjald, átta sinnum fjórir metrar, á lægra verði. Brúðkaupið fór síðan fram í júlí 2018 við Kleifarvatn. Rúmum mánuði síðar var gefinn út reikningur vegna leigunnar á tjaldinu og uppsetningu við það. Heildarupphæð hans var 185 þúsund með virðisaukaskatti. 125 þúsund voru vegna uppsetningar og niðurtektar á tjaldi en 24 þúsund vegna stóla og borðhitara. Reikningur var gefinn út á félagið Geri allt en það var samkvæmt fyrirmælum forsvarsmanns þess.

Ætlaði að mæta á þyrlu í teitið

Þetta þótti forsvarsmanni Geri allt frekar vel í lagt þar sem fyrra tilboðið hefði verið talsvert ódýrara og það fyrir stærra tjald. Forsvarsmaður Nýhugsunar benti á á móti að fyrra tjaldið hefði orðið dýrara að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá hefði vinna við uppsetningu tjaldsins reynst meiri þar sem undirlagið á staðnum var ekki með besta móti. Því mótmælti forsvarsmaður Geri allt og krafðist um 30% lækkunar á reikningi.

„Þú fékkst ekki tilboð í minna tjaldið, þú fékkst aðeins þær upplýsingar að það væri á „betra verði“ sem það klárlega er. Það eru einu forsendurnar sem þú hafðir. Það kemur hvergi fram að Rent-A-Tent reikni verð útfrá fermetra-fjölda og það höfum við aldrei gert. [...] Ég var ítrekaður varaður við að vinna þetta verk fyrir þig af aðilum sem þekkja til þín en ég trúði því ekki að þú myndir reyna að svíkja og pretta,“ sagði meðal annars í svarbréfi forsvarsmanns Nýhugsunar vegna þessa.

Fyrir dómi lágu einnig fyrir smáskilaboð frá leigusala tjaldsins til brúðgumans þar sem hann spurði hvort allt hefði gengið vel. Þeim skilaboðum var svarað með „Gekk ljómandi, bara passa að keyra ekki yfir mosann þegar þið takið saman.“

Báðir forsvarsmenn komu fyrir dóm og gáfu skýrslu. Í máli forsvarsmanns Nýhugsunar kom meðal annars fram að gagnaðili hans hefði heyrt í honum með það að marki að leigja af honum tjald fyrir giftinguna. Tjaldið hefði átt að vera „partítjald“, standa við vatnið en þangað hugsist brúðguminn koma fljúgandi í þyrlu í teitið.

Taldi „fyrir vask“ innihalda verð með virðisaukaskatti

Í aðilaskýrslu sinni hafði forsvarsmaður Geri allt ýmsar athugasemdir. Tjaldið sem hann fékk hefði verið minna en það sem hann óskaði eftir en smækkunin hefði verið ákveðin einhliða af forsvarsmanni Nýhugsunar. Það tjald hefði reynst alltof lítið.

„Það hefði verið rigning á brúðkaupsdaginn og rétt náðst að halda athöfnina í tjaldinu áður en gestir hafi brunað í bæinn og farið á staðinn Shake&Pizza í bjór og pitsu, en það hafi verið eini staðurinn sem hafi getað tekið við öllum þessum fjölda gesta með þessum fyrirvara,“ sagði í aðilaskýrslu hans.

Aðspurður um uppgefið verð í samskiptum aðila sagði brúðguminn fyrrverandi að hann hefði talið að 155 þúsund „fyrir vask“ þýddi að virðisaukaskattur væri innifalinn. Aðspurður um hvers vegna hann hefði ekki gert athugasemdir við tjaldið fyrr en reikningur barst sagði hann hafa viljað „varðveita minninguna um brúðkaupið“.

Málskostnaður tæplega þrefaldaði upphæðina

Í niðurstöðu dómsins sagði að samkvæmt samskiptum aðila hefði verið óskað eftir því að reikningur yrði sendur Geri allt og samskiptin farið í gegnum netfang félagsins. Því hefði félagið verið viðsemjandi í málinu og kröfunni réttilega beint að því. Í ljósi þess að um samlagsfélag var að ræða var fyrirsvarsmaður félagsins einnig ábyrgur fyrir greiðslu reikningsins.

Geri allt byggði meðal annars sýknu sína á lögum um þjónustukaup. Dómari málsins benti hins vegar á að þau lög giltu um kaup neytenda á vörum og þjónustu. Þar með gætu þau ekki tekið til félagsins Geri allt í atvinnuskyni eða í tengslum við starf þess.

„Ljóst er að þar sem ekki var samið um fast verð fyrir þjónustu stefnanda sem fólst í útleigu minna tjaldsins bar stefnda Geri allt slf. í samræmi við rótgróna meginreglu kröfuréttar að greiða stefnanda það verð sem telja mátti sanngjarnt með hliðsjón af því hversu mikil og hvers eðlis vinnan var. Sönnunarbyrðin fyrir því að það verð sem síðar var sett upp fyrir þjónustuna sé ósanngjarnt hvílir á þeim sem slíku heldur fram. Þegar leyst er úr því hvort stefnda Geri allt slf. hafi tekist þessi sönnun getur dómurinn ekki litið hjá því við mat á sönnunargögnum málsins að stefndi gerði engar athugasemdir við að þjónustu stefnda hefði verið áfátt fyrr en í greinargerð sem lögð var fram í dóminum 28. mars 2019. Þær upplýsingar sem þar koma fram stangast á við þau símaskilaboð sem rakin eru í gögnum málsins þar sem [fyrirsvarsmaður Geri allt] kvað brúðkaupið hafa gengið „ljómandi vel“,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Krónurnar 185 þúsund voru látnar bera dráttarvexti frá byrjun október 2018 en auk þess ber Geri allt og forsvarsmanni þess félags að greiða Nýhugsun 350 þúsund krónur í málskostnað.