Þegar Kate Middleton og William prins gengu í það heilaga ætlaði allt um koll að keyra í Bretlandi. Scotland Yard, breska lögreglan, áætlar að um tvær milljónir manna hafi safnast saman á götum úti þegar athöfnin í kirkjunni fór fram. Þar af voru um 600 þúsund erlendir ferðamenn sem komu gagngert til Bretlands til þess að fylgjast með brúðkaupinu og upplifa þá konunglegu stemningu sem því fylgdi. Það eru mun fleiri en gert hafði verið ráð fyrir og öryggisaðgerðir lögreglu miðuðust við. En allt gekk þó vel. Allar minniháttar óspektir voru kæfðar í fæðingu. Lögreglan handtók um 40 manns og færði á lögreglustöð.

Brúðkaupshagkerfið

Kostnaður við brúðkaupið sjálft, það er viðburðinn sem slíkan og skipulag hans, var tæplega milljarður íslenskra króna samkvæmt upplýsingum sem birtar voru á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC. Sala á ýmsum smávarningi fyrir utan Buckinghamhöll gekk vel og seldust tugþúsundir fána, blaðra og hatta á brúðkaupsdeginum einum. Velta í smásölu er áætluð um tveir milljarðar punda, eða um 370 milljarðar króna, að því er greint var frá í The Telegraph daginn eftir brúðkaupið. Strax viku fyrir brúðkaupið voru gestir á börum og veitingahúsum í London orðnir fleiri en venjulega, að sögn veitingamanna sem Daily Mail ræddi við.

Óbein mikil áhrif

Óbein efnhagsleg áhrif hins konunglega brúðkaups verða ekki metin svo glögglega til fjár. Þar vegur þyngst áhrif þess á auglýsingasölu fjölmiðla sem fylgdust með og sýndu brúðkaupið í beinni útsendingu um nær allan heim. Talið er að yfir milljarður manna hafi horft á brúðkaupið í sjónvarpi. Áhorfið náði hámarki þegar William og Kate birtust á svölum Buckingham-hallar og kysstust. Samkvæmt mælingum sem The Guardian greindi frá var um 1,5 milljarðar manna við skjáinn að fylgjast með þegar það átti sér stað.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.