„Ég er bókaður með brúðkaup alveg fram í október og nóvember og fram á næsta haust,“ segir séra Hjörtur Magni Jóhannsson, safnaðarprestur og forstöðumaður Fríkirkjunnar í Reykjavík. „Fyrir faraldur var ég með 50-60 brúðkaup á ári, en á meðan faraldrinum stóð datt það verulega niður. Í dag, eftir þessi tvö Covid ár, er allt að færast í aukana aftur en þó ekki í nákvæmlega sama farið.“

Egill Ásbjarnarson, meðstofnandi Suitup Reykjavík, segir mikla söluaukningu á jakkafötum að undanförnu. „Það er búið að vera rosalega mikið að gera hjá okkur síðustu tvo mánuði. Það er ekkert lát á því, þegar tekið er mið af bókunarstöðu. Hávarr Hermóðsson, verslunarstjóri hjá Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar er sama sinnis og segir mikla aukningu í jakkafatasölu. Hann tengir aukninguna hins vegar frekar við útskriftir en brúðkaup.

Anna Svava Knútsdóttir, leikkona, uppistandari og veislustjóri, segir mikið um bókanir fyrir brúðkaup að undanförnu. „Það er rosalega mikið spurt um brúðkaup núna. Ég var ekki mikið að veislustýra brúðkaupum áður fyrr, en finnst þetta hins vegar mjög gaman og tek þessum verkefnum glöð að mér.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.