Már Wolfgang Mixa
Már Wolfgang Mixa
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Már Wolfgang Mixa lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík telur þátttöku í útboði Icelandair sem hefst í fyrramálið vera góða áhættufjárfestingu en vegna þess hve áhættan sé mikil að taka tilliti til þess að hún geti tapast alfarið.

Hann varar við því að fólk taki út séreignasparnað eða fari í lántökur til að taka þátt í útboðinu eins og Viðskiptablaðið hefur heyrt fregnir um að sé að gerast í einhverjum tilfellum.

„Það er óviturlegt fyrir langflesta, maður þarf nú ekki að hafa lært mikla fjármálafræði til að vita það. Almennt á að fólk að dreifa áhættu, en þátttaka í útboðinu er í lagi ef fólk hefur efni á að setja einhverja upphæð í þetta. Flugrekstur er almennt áhættusamur en á Covid tímum er hann það sérstaklega. Ég man ekki eftir því að flugrekstur hafi á minni ævi verið jafnáhættusamur og nú, maður þarf kannski að leita aftur til olíukreppunnar á 8. áratugnum þegar ég var ungur strákur,“ segir Már.

„Þar sem hættan er það mikil á að fjárfestar tapi þeim pening sem lagt verði í útboðið þá myndi ég segja að viðunandi árleg arðsemi af fjárfestingunni ætti að vera svona 20 til 30%, því þessi fjárfesting flokkast algerlega undir áhættukaup. Ef þú ert búinn að tvöfalda peninginn á tveimur til þremur árum þá verðurðu vissulega ánægður, en þá ertu í raun ekki annað en að uppfylla eðlilegar arðsemiskröfur miðað við áhættuna.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefst útboð nýrra hluta Icelandair í fyrramálið og stendur yfir í tvo daga, en félagið hyggst safna 20 til 23 milljörðum króna sem munu jafngilda um 80% eignarhalds í félaginu. Lágmarksupphæð til þátttöku í útboðinu er 100 þúsund krónur, en upphaflega stóð til að það væri 250 þúsund krónur.

„Ég myndi segja að það væri sú upphæð sem fólk ætti að miða við að fjárfesta, en málið er að ef bréfin tvöfaldast í virði verður fólk auðvitað ánægt með sig, en ef þessir peningar verða verðlausir þá er sársaukinn meiri af því að tapa 100 þúsund kalli fyrir flesta en af því að hagnast um 100 þúsund kall,“ segir Már.

„Ef það kemur einhvers konar bóluefni sem leysir úr Covid vandanum innan 12 mánaða þá verður þetta klárlega arðvæn fjárfesting, þó við vitum auðvitað ekki hversu mikið félagið muni hagnast á nýjan leik. Ef við lítum bara einhver tíu ár aftur í tímann þá hafði enginn áhuga á útboði félagsins þá, en svo líða bara nokkur ár og þá er félagið að hagnast meira á einu ári heldur en virðið var þarna einhverjum árum fyrr, þó í framhaldinu hafi arðsemin byrjað að dragast saman. Nú er bara spurningin hvort þeir þreyji Þorrann, en ef það tekst, þá eru miklar líkur, án þess að hægt sé að fullyrða það, að fjárfestingin borgi sig. En þetta er klárlega áhættufjárfesting.“

Már segir umræðuna í kringum sig frekar hafa verið neikvæða heldur en jákvæða um fjárfestingu í félaginu en heyrst hefur gagnrýni á það sem sagt hefur verið hvatning til almennings um þátttöku í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

„Þegar fólk hefur spurt mig hvað það ætti að gera hefur mitt ráð verið að segja þeim að líta á þetta þannig að brugðið geti algerlega til beggja vona. Það þarf að hafa í huga að Icelandair gæti verið farið af landakortinu eftir tvö ár, en þá gæti líka Covid verið einhvers konar fjarlægur draumur,“ segir Már sem svarar því neitandi að hann ætli að veðja húsinu á þennan hest. „Nei, en ég ætla að setja smáklípu af húsinu undir, nokkrar spýtur.“