Elís Pétur Elísson útgerðarmaður og Daði Hrafnkelsson tannlæknir hafa stofnað fyrirtækið Hið austfirska bruggfélag ehf. sem mun koma til með að vera fyrsta ölbrugghús Austurlands.

„Þetta er nýstofnað félag sem ég og Daði stofnuðum,“ segir Elís Pétur, framkvæmdastjóri félagsins. „Við hyggjumst setja upp bjórbruggverksmiðju á Breið- dalsvík og erum búnir að finna græjur í Danmörku. Við erum núna að ganga frá kaupum á þeim.“

Fyrsta ölbrugghúsið á Austurlandi

„Við erum að tala um svona ölbrugghús, sem útleggst á ensku sem micro-brewery. Það er náttúrulega ekkert slíkt á Austurlandi. Þess vegna fannst okkur það tilvalið að koma þessu á koppinn.“

Daði er frá Breiðdalsvík en starfar nú við tannlækningar í Danmörku. Þar hafa þeir komið sér í samband við bruggmeistara, en til að byrja með munu þeir framleiða þrjár tegundir af bjór. „Annar þeirra er hjá Carlsberg í Danmörku meðan hinn vinnur hjá ölbrugghúsi í Danmörku,“ segir Elís.

„Við stefnum á að framleiða þrjár tegundir til að byrja með – einn ljósan, hefð- bundinn lager og einn sem er að- eins dekkri. Svo munum við vera með einn Indian pale ale-bjór.“

Selja til nærliggjandi sveitar í fyrstu

Stofnendurnir hafa orðið sér út um húsnæði undir framleiðsluna, svo það helsta sem þarf að gera áður en hún getur hafist er að fá helstu tæki og tól undir framleiðsluna til landsins.

„Við eigum hús sem við keyptum síðasta haust og planið er að hefja framleiðslu í síðasta lagi næsta vetur,“ segir Elís. „Það er ákveðinn kostur að gera þetta á stað eins og Breiðdalsvík þar sem húsnæðið er ódýrt. Fyrst um sinn hyggjumst við nú framleiða fyrir þetta svæði á Austurlandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.