Þýskir bjórframleiðendur hafa mótmælt harðlega fyrirhuguðum breytingum Evrópusambandsins á löggjöf um bjórsölu, segir í frétt Financial Times.

Til stendur að hækka lágmarkstolla á bjórsölu innan sambandsins og einnig að sérstök viðvörun verði prentuð á bjórflöskur sem geri grein fyrir skaðsemisáhrifum sem felist í misnotkun áfengis.

Talsmenn þýskra bruggara segja þetta myndi setja smánarblett á þau 95% fólks sem drekki bjór hóflega og án skaðsemis áhrifa. Benda bjórframleiðendur á að forvarnarstarf sé mun skilvirkara heldur en viðvaranir af þessum toga, segir í fréttinni.

Heilbrigðisráðherra Evrópusambandsins, Markos Kyprianou, mun leggja fram tillögurnar á næstu mánuðum, en hann hefur svarað gagnrýninni harðlega og segir hana ómálefnalega og villandi, enda eigi bjórframleiðendur hagsmuna að gæta í málinu, segir í fréttinni.