Fyrirhugað er að opna brugghús á Árskógssandi sem mun framleiða áfengan bjór. Byggð verður verksmiðja undir framleiðsluna á Árskógssandi auk þess sem rekin verður sveitakrá í tengslum við þessa starfsemi. Í skoðun er að nota m.a. íslenskt bygg í framleiðsluna og viðræður hafa átt sér stað við eyfirska bændur vegna þessa. Fjármögnun er nú á lokastigi og viðræður standa yfir við aðila í Tékklandi um uppsetningu framleiðslutækja.

Stærsta bruggverksmiðja á Íslandi er staðsett á Akureyri, en þar framleiðir Vífilfell tvær söluhæstu bjórtegundir landsins, Víking og Thule, ásamt Víking light, Carlsberg. Brugghúsið á Árskógssandi mun hins vegar ekki keppa við aðra innlenda framleiðslu varðandi bjór í dósum eða bjór á kútum fyrir veitingahús, heldur einbeita sér fyrst og fremst að framleiðslu á sérstæðum bjór í flöskum. Það er hluti af matarmenningu víða erlendis að framleiða staðbundinn bjór í litlum brugghúsum og telja heimamenn að slík viðbót við fjölbreytta matavælaframleiðslu í Eyjafirði skapi án efa áhugaverða möguleika fyrir ferðaþjónustu á svæðinu.