Bruggsmiðjan ehf. sem meðal annars framleiðir bjórinn Kalda tapaði rúmlega 3,4 milljónum króna á árinu 2011. Breytingar fjármagnsliða í reikningum félagsins útskýra rekstrarniðurstöðuna en tap vegna gengismismunar eykst til að mynda um 8,9 milljónir króna. Eigið fé félagsins í lok árs 2011 var neikvætt um 56,9 milljónir króna.

„Þetta kemur fyrst og fremst til út af gengismun sem er vegna lána hjá Byggðastofnun.“ segir Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar og einn eigenda. Lán Bruggsmiðjunnar hafa hækkað úr 53 milljónum í 113 milljónir frá því að þau voru tekin árið 2006. Byggðastofnun hefur ekki viljað færa niður erlend lán að svo stöddu en niðurstöðu dómstóla vegna gengislána er að vænta á næstu misserum.