Bruggsmiðjunnar á Árskógssandi, sem framleiðir sjö gerðir af Kalda, kemur menn enn eina gerðina á markað síðar í sumar. Mun nýi bjórinn bera nafnið Stinnings-Kaldi. Það á að vera afar „rismikill bjór” sem framleiddur verður að frumkvæði SagaMedica sem nýtir mikið lækningajurtir í sína framleiðslu. Nýi bjórinn verður bruggaður eins og annar bjór úr byggi en auk þess verður notuð í hann hvönn sem skorin verður í Hrísey.

Sannreynt þykir að hvönnin hafi margháttaða virkni á líkamsstarfsemina, ekki síst hjá karlmönnum. Má segja að framleiðslan á  Stinnings-Kalda styðji  sögusagnir um að eigendur Bruggsmiðjunnar hafi um skeið bætt einhverjum undraefnum í Kalda sem leitt hafi til óvenju tíðra barneigna hjá neytendum.

Fyrir framleiðir Bruggsmiðjan 7 gerðir af Kalda. Það er ljós Kaldi, dökkur Kaldi, Lite Kaldi, Jóla Kaldi, Þorra Kaldi, Páska Kaldi og nýjasta gerðin er Öl eða Ale sem bragðmikill millidökkur bjór sem bruggaður er á sérstakan hátt.

Söluhæsti flöskubjórinn

Hugmyndina að fyrirtækinu kom frá hjónunum Agnesi Sigurðardóttur og Ólafi Þresti Ólafssyni á Árskógssandi árið 2005. Í október sama ár skrifuðu þau undir kaupsamninga á bruggtækjum úti í Tékklandi. Í desember 2005 var fyrirtækið formlega stofnað og framleiðsla hófst árið 2006. Er þetta eina bruggverksmiðjan á Íslandi sem framleiðir ógerilsneyddan bjór með engum viðbættum sykri og án rótvarnarefna. Auk Kalda framleiðir verksmiðjan líka bjórinn Gullfoss í verktöku fyrir Ölgerð Reykjavíkur eftir uppskrift Danans Anders Kissmeyer sem á Nørrebro Bryghus í Kaupmannahöfn.

„Kaldi er nú söluhæsti flöskubjórinn á Íslandi og við erum þar með um 20% markaðshlutdeild, segir Ólafur. "Salan hefur verið mjög vaxandi. Meira að segja í fyrra, þegar við töldum að það yrði gott að halda sjó með óbreytta sölu, náðum við 12% aukningu. Þá erum við með um 10% aukningu það sem af er þessu ári.

Á síðasta ári framleiddum við um 300.000 lítra af bjór og seldum rétt tæplega milljón flöskur. Þetta er miklu meiri framleiðsla en við reiknuðum upphaflega með. Okkar áætlanir gerðu ráð fyrir að við yrðum komin í 180 þúsund lítra eftir þriggja ára starfsemi en ekki 300 þúsund lítra eins og raunin varð."

David Masa er bruggmeistari fyrirtækisins, en hann kom frá Tékklandi. Er hann bruggmeistari í 4 ættliði og með 9 ára nám að baki en grunnbruggmeistaranám er annars 4 ár.

„Hann er nokkuð þekkt nafn í bruggheiminum og hefur sérhæft sig í því koma af stað litlum brugghúsum úti um allan heim. Við höfum líka verið mjög heppin með annað starfsfólk en hjá fyrirtækinu vinna í dag 5 fastráðnir og 2 í hlutastarfi og allir geta gengið hér í öll störf," segir Agnes, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.