Slæmt ástand sérverslana í Bretlandi þýðir að brunaútsala á eignum Baugs mundi ekki skila kröfuhöfum mikið meiru en 10%, að því er Guardian hefur eftir sérfræðingum.

Guardian hefur eftir heimildum í bankakerfinu að í skýrslu sem PricewaterhouseCoopers tók saman fyrir stærsta kröfuhafann, Landsbankann, komi fram að ef eignasafnið yrði selt á meðan Bretland er í kreppu mundi salan aðeins skila 25 milljörðum króna, eða 150 milljónum punda.

Skuldir Baugs við Landsbanka, Kaupþing og Glitni eru sagðar yfir 1.000 milljónir punda. Í fréttinni kemur fram að auk þessa skuldi eitt fyrirtækja Baugs, Mosaic, Kaupþingi 400 milljónir punda.

Haft er eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni stjórnarformanni Baugs að hann sé ósammála mati PricewaterhouseCoopers og að hann telji eignasafnið mjög verðmætt.