Átta bílar skemmdust í bruna við Bílaumboðið Öskju í nótt. Ljóst er að um íkveikju er að ræða.

,,Það er mikil mildi að ekki fór verr í brunanum og enginn slasaðist. Sem betur fer lágu bílarnir sem brunnu ekki við húsið þannig að ekki urðu skemmdir á því. Hluti bílanna sem brunnu eru í eigu viðskiptavina okkar og við erum að hafa samband við þá nú í morgunsárið," segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

,,Eldurinn kviknaði á milli klukkan 4.30 og 5 í nótt. Öryggisfyrirtæki, sem þjónustar Öskju, hafði samband við okkur og lét vita að eldur hefði kviknað í einum bíl og hann dreifðist í fleiri bíla. Slökkviliðið var mjög fljótt á staðinn og slökkti eldinn. Lögreglan fer með rannsókn málsins og hefur óskað eftir vitnum sem kunna að hafa séð mannaferðir við Öskju á þessum tíma í nótt. Einnig er verið að fara yfir öryggismyndavélar sem eru staðsettar við húsið. Bruninn mun ekki hafa nein áhrif á starfsemi Öskju og við munum halda okkar striki en við ætlum að frumsýna nýjan Kia Ceed nk. laugardag," segir Jón Trausti ennfremur.