Eldur kom upp í tveimur verksmiðjum Geest PLC í Barton (Barton-on-Humber site) í nótt og olli miklum skemmdum á þeim. Verksmiðjurnar annast framleiðslu pasta og brauðs. Slökkvilið hefur náð tökum á eldinum og enginn slasaðist. Í tilkynningunni kemur fram að atburðirnir hafi engin áhrif á tilboðið.

Ein önnur framleiðslueining er á svæðinu, hún er óskemmd en framleiðsla liggur niðri eins og er. Verksmiðja félagsins í Scunthorpe sem einnig framleiðir pasta er í fullum rekstri. Viðskiptavinir félagsins hafa verið upplýstir um atburðinn í nótt.

Þessar tvær framleiðslueiningar svara til minna en 10% af eignum Geest og hlutdeild þeirra í veltu samstæðunnar er um 6% af heildarveltu. Starfsemi Geest er að fullu tryggð fyrir atburðum sem þessum.

Bakkavör Group hf. gerði þann 8. mars sl. 2005 bindandi kauptilboð í Geest PLC en þessir atburðir hafa engin áhrif á tilboðið.