Áætlað er að áhrif stórbrunans í Skeifunni 6. júlí síðastliðinn á tjónakostnað VÍS verði um 250 milljónir króna. Það jafngildir um 2% af eigin tjónakostnaði VÍS á síðasta ári, að því er fram kemur í uppgjöri VÍS í dag.

Fram kom í gær að bruninn í Skeifunni hafi kostað Sjóvá 232 milljónir króna. Reikningurinn vegna brunans kemur fram í bókum Sjóvár á þriðja ársfjórðungi. Sjóvá metur áhrif brunans á 481 milljón króna og að hlutur endurtryggjenda nemi 281 milljón króna þar sem eigin áhætta Sjóvár sé að hámarki 200 milljónir króna. Að auki þurfi félagið samkvæmt endurtryggingasamningnum að endurnýja þá vátryggingavernd sem reyndi á í brunanum og greiði fyrir það 32 milljónir króna.

Í Viðskiptablaðinu í júlí að eigin áhætta TM vegna brunans nemi 150 milljónum króna. Í blaðinu sagði að mögulegt sé að endurtryggingakjör íslenskra tryggingafélaga verði lakari í kjölfar brunans. Þá sagði í blaðinu að óvíst sé hvort þetta er allur kostnaðurinn sem tryggingafélögin þurfa að taka á sig vegna brunans. Ástæðan er sú að þegar endurtryggingasamningar eru endurnýjaðir þá er m.a. litið til tjónasögu félagsins. Því gætu endurtryggingakjör félaganna versnað í framhaldinu.