*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 28. október 2019 11:44

Brunnur fjárfestir í Laka Power

Laki hefur þróað tækni sem vinnur raforku frá háspennulínum til að knýja eftirlitsbúnað þeirra.

Ritstjórn
Fulltrúar hluthafa og Brunns, ásamt starfsmönnum og stjórn Laka Power, daginn sem gengið var frá samningnum.
Aðsend mynd

Sprotafyrirtækið Laki Power hefur fengið fjármögnun frá sprotasjóðnum Brunni vaxtarsjóði. Upphæðin er ekki tilgreind, en fjármagnið er sagt munu styðja við áframhaldandi vöruþróun og sókn á erlenda markaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Laka Power, sem hyggst umbylta eftirliti raforkukerfa.

Sigurjón Magnússon, framkvæmdastjóri Laka, segir straumhvörf felast í því að fá Brunn að borðinu, en hann er fyrsti fagfjárfestirinn sem kemur að félaginu. „Með fjárfestingu Brunns fylgir mikilvæg reynsla af uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja og þekking á alþjóðlegu umhverfi sem mun nýtast á vegferð Laka Power á komandi árum. Fjármagnið mun gera félaginu kleift að bæta vöru- og þjónustuframboð sitt og mæta auknum eftirlitsþörfum rekstraraðila flutnings- og dreifikerfa raforku.“

Þá er haft eftir Árna Blöndal, fjárfestingastjóra hjá Brunni vaxtarsjóði að „eigendur flutnings- og dreifikerfa raforku þurfi í auknum mæli að reiða sig á rauntímaupplýsingar til að tryggja rekstraröryggi. Tækni Laka Power býður uppá áður óþekkta möguleika í slíku rauntímaeftirliti. Markaðurinn er alþjóðlegur og tækifærið einstakt.“

Í tilkynningunni eru nýjar áskoranir tengdar framboði frá endurnýjanlegum orkugjöfum sagðar hafa aukið álag á innviði raforkukerfa, á sama tíma og kröfur neytenda og eftirlitsaðila um rekstraröryggi fari vaxandi.

Knýja eftirlitskerfi háspennulína án utanaðkomandi aflgjafa
Laki Power var stofnað árið 2015 og hefur frá upphafi unnið með Landsneti að vöruþróun- og prófunum.

Eftirlitskerfi Laka byggir á því sem félagið kallar PowerGRAB: tækni sem vinnur raforku frá háspennulínum án þess að tengjast þeim beint raffræðilega. Það er gert með því að nýta sterkt rafsegulsvið sem umlykur háspennulínur. Tæknin er sögð afar vistvæn og skila nægu afli svo knýja megi hverskyns tæki og búnað, til dæmis fjarskipta- og eftirlitsbúnað. Aflið sem PowerGRAB-tæknin skilar er sagt allt að 100 sinnum meira en aðrar samanburðarhæfar lausnir á markaði.

Kerfinu er ætlað að taka við af rafstöðvum sem nota jarðefnaeldsneyti, vindmyllur, sólarsellur, eða sjálfstæða tengingu við lágspennu dreifikerfi til að knýja eftirlitsbúnað sem rekstraraðilar flutnings- og dreifikerfa nota til að fylgjast með ástandi háspennulína. Fjölmargir annmarkar eru sagðir á notkun ofangreindra lausna, bæði hvað varði umhverfismál og kostnað.


Háspennueftirlitstæki Laka Power, með veðurstöð, á háspennulínu á Íslandi.

Stikkorð: Brunnur Laki Power