Kjartan Örn Ólafsson hefur gengið til liðs við Brunn Ventures með það fyrir augum að taka þátt í að stýra nýjum átta milljarða vísisjóði (e. venture capital fund) sem ýtt verður úr vör á haustmánuðum undir nafninu Brunnur vaxtarsjóður II.

Kjartan hefur setið í stjórn Brunns vaxtarsjóðs frá stofnun árið 2015 og gengur nú í raðir fjárfestingastjóra. Kjartan verður einn af fjórum fjárfestingastjórum í teyminu og mun starfa sem Venture Partner, sem lauslega má þýða sem framtaksfjárfestingarstjóri. Venture Partner fyrirkomulagið er algengt á meðal erlendra vísisjóða en er nú í fyrsta sinn innleitt á Íslandi.

Það fyrirkomulag er oft haft á þegar reynslumikill frumkvöðull gengur til liðs við vísisjóð, tekur fullan þátt í öflun tækifæra, undirbúningi, greiningu og eftirfylgni að lokinni fjárfestingu sjóðsins en hefur þá sérstöðu að geta jafnframt verið virkur í öðrum fjárfestingaverkefnum sem ekki skarast við rekstur sjóðsins.

Kjartan hefur stofnað og rekið eigin nýsköpunarfyrirtæki, fjárfest og setið í stjórnum annarra bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Má þar nefna félög eins og Basno, GRID, Já, Datamarket og TeaTime. Árið 2011 stofnaði Kjartan tæknifyrirtækið Basno Inc. sem starfar í New York og tryggði því fjármögnun frá leiðandi bandarískum vísisjóðum.

Áður var hann um árabil framkvæmdastjóri á viðskiptaþróunarsviði fjölmiðlafyrirtæksins Bertelsmann Inc. í New York. Þar stýrði hann nýsköpunarverkefnum fyrir dótturfyrirtæki þess svo sem Random House, SonyBMG Music og Fremantle Media sem öll eru leiðandi á heimsvísu á sínu sviði.

„Kjartan hefur áratuga reynslu af árangursríku nýsköpunarstarfi. Hann er reyndur frumkvöðull bæði hér á Íslandi og erlendis auk þess að vera farsæll englafjárfestir,“ segir Árni Blöndal fjárfestingastjóri og annar stofnenda Brunns Ventures.

„Hann hefur viðamikið tengslanet í frumkvöðla- og vísiheiminum í Bandaríkjunum. Við höfum kynnst vel í gegnum starfið hjá Brunni og vitum að við eigum leið saman. Það gleður okkur innilega að fá hann í teymið og sem meðeiganda í sjóðnum.“

Undanfarin ár hefur Kjartan verið virkur í íslensku nýsköpunarstarfi bæði beint og í gegnum nýsköpunar- og viðskiptaþróunarfélag sitt Volta ehf. og hefur meðal annars verið valinn íslenskur englafjárfestir ársins af Nordic Startup Awards.

Utan viðskiptalífsins hefur Kjartan setið í stjórnum fjölmargra samtaka og stofnana svo sem American-Scandinavian Foundation, Hörpu tónlistarhúss, verið stjórnarformaður Listahátíðar í Reykjavík og er stjórnarformaður UNICEF á Íslandi. Kjartan las heimspeki og rökfræði til BA-prófs við Háskóla Íslands og Háskólann í Genúa á Ítalíu, og lauk MBA-gráðu frá Harvard Business School.

„Ég hef setið í stjórn Brunns vaxtarsjóðs frá stofnun og hef unnið náið með þeim Sigurði Arnljótssyni og Árna Blöndal, fjárfestingastjórum Brunns Ventures,“ segir Kjartan Örn Ólafsson.

„Sjóðurinn hefur náð eftirtektarverðum árangri og því er spennandi að taka þátt í stofnun næsta sjóðs og slást í hópinn sem fjárfestingastjóri. Það er fjölmargt áhugavert að gerjast meðal íslenskra frumkvöðla. Ég hlakka til að vinna með þeim og nýta reynslu mína til að auka líkurnar á að íslensk nýsköpunarfyrirtæki nái árangri á heimsvísu.“