Bræðurnir Guðmundur og Hjálmar Kristinssynir í Brimi hafa gert samning við Ísfélag Vestmannaeyja og Fjárfestingarfélagið Kristin í Vestmannaeyjum um kauprétt hinna síðarnefndu á hlut bræðranna í Vinnslustöðinni [ VNST ] í Vestmannaeyjum. Hluturinn sem um ræðir er um þriðjungur hlutafjár og í tilkynningu frá Ísfélaginu segir að stefnt sé að því að eignast í það minnsta 35% hlut í Vinnslustöðinni og ná samkomulagi við meirihlutaeigendur um reksturinn.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson stjórnarformaður Ísfélagsins sagði í samtali við Viðskiptablaðið að kaupverð hafi verið 7,90 á hlut.

Afskráning Vinnslustöðvarinnar stendur yfir

Deilur hafa um hríð staðið á milli bræðranna Guðmundar og Hjálmars annars vegar og heimamanna sem eru núverandi meirihlutaeigendur í Vinnslustöðinni hins vegar. Deilurnar leiddu meðal annars til þess að hluthafafundur sem haldinn var 8. þ.m. samþykkti afskráningu Vinnslustöðvarinnar úr Kauphöllinni.

Í tilkynningu Ísfélagsins segir að mat kaupréttarhafa sé, að mýmörg tækifæri séu til samvinnu á milli Ísfélagsins, Vinnslustöðvarinnar og fleiri aðila í útgerð og vinnslu í Vestmannaeyjum. Í framhaldi af samningnum verði látið reyna á vilja meirihlutaeigenda Vinnslustöðvarinnar til slíks samstarfs til eflingar atvinnulífi í Vestmannaeyjum.

Yfirtökutilboðið sagt „mjög ósanngjarnt“

Í tilkynningu frá bræðrunum Guðmundi og Hjálmari segir að þeir hafi eignast hlut í félaginu árið 2002 og forsenda aðkomunnar að félaginu hafi verið að félagið væri skráð í Kauphöll. Í maí s.l. hafi, þeim að óvörum, hópur hluthafa sem réð yfir 50,04% hlutafjár farið fram á afskráningu úr Kauphöll og gert öðrum hluthöfum yfirtökutilboð sem metið hafi verið „mjög ósanngjarnt af hlutlausum aðila“. Nú hafi þeir náð samkomulagi við Ísfélagið og tengda aðila um kauprétt á eignarhlutnum.

Á fyrrnefndan hluthafafund 8. nóvember var mætt fyrir 99,57% hlutafjárins og féllu atkvæði þannig að af þeim sem mættu sögðu 61,00% já við afskráningunni en 33,44% nei.