Leggi fjárfestir inn hærra tilboð en hann getur staðið við þá getur það talist vera markaðsmisnotkun enda er með því verið að gefa eftirspurn fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, að mati Fjármálaeftirlitsins (FME). Eftirlitið segir ástæðu þess að fjárfestar geri hærri tilboð í hlutafjárútboðum en þeir geti staðið við þá að þeir geri ráð fyrir umtalsverðri skerðingu og fari þessa leið  til að auka hlut sinn. FME telur mögulegt að hegðun fjárfesta sem þessi eigi þátt í þeirri miklu umframeftirspurn sem verið hefur í hlutafjárútboðum að undanförnu. FME ætlar að fara yfir verklag við hlutafjárútboðin sökum þessa.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um eftirspurn í útboðum upp á síðkastið, s.s. í útboðum TM og VÍS. Í útboði VÍS skráðu fjárfest­ar sig fyrir nærri 150 milljörðum króna en til sölu var hlutafé fyrir 14,7 milljarða. Í útboði TM vildu fjárfestar hlutabréf fyrir 357 millj­arða króna. Endanlegt söluandvirði hlutarins, sem var í hæsta enda út­boðsgengis, var 4,4 milljarðar.

Páll Harðarson , forstjóri Kauphallarinnar, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku þetta áhyggjuefni. Hann tók í sama streng í viðtali við Kastljósið á RÚV í gærkvöldi.

FME sendi svo frá sér tilkynningu í dag þar sem brýnt er fyrir fjárfestum að þeir kynni sér það lög og reglur sem gildi um hlutafjárútboð og töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

Í Kastljósinu var vísað til umfjöllunar í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins um hlutabréfamarkaðinn og útboðin með hlutabréf VÍS og TM. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.