Bryndís Gunnlaugsdóttir formaður Sambands ungra framsóknarmanna sækist eftir 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi þingkosningar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Bryndísi, sem er 28 ára og á að baki meistaranám í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfar nú hjá PricewaterhouseCoopers.

Í yfirlýsingunni segir m.a.:

„Hávær krafa er nú uppi um endurnýjun innan stjórnmálaflokka sem og á Alþingi. Ég tel mikilvægt að í þessari endurnýjun muni ungt fólk eiga sína fulltrúa á þingi. Það er fólk á mínum aldri, sem er að koma úr námi og stofna fjölskyldur sem á sérstaklega erfitt nú um mundir. Himinhá greiðslubyrði húsnæðislána og námslána ásamt því að hugsa um börn reynir mjög á fjárhag ungs fólks. Mikilvægt er að hlúa sérstaklega að ungu fólki svo það flýi ekki ástandið og fari úr landi. Þetta er sú kynslóð sem kemur til með að þurfa byggja þjóðfélagið upp á ný.

Ljóst er að næstu ár verða krefjandi fyrir Íslendinga og taka þarf erfiðar ákvarðanir sem snerta okkur öll. Íslenska ríkið þarf að ráðast í miklar aðhaldsaðgerðir til þess að jafnvægi náist í ríkisfjármálunum. Grundvallaratriði við töku erfiðra ákvarðana er að staðinn verði vörður um mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfið eins og kostur er þar sem framsóknarmenn hafa svo sannarlega lagt sitt af mörkum á undanförnum árum og áratugum við að koma þjóðinni í fremstu röð meðal þjóða. Þeirri stöðu megum við ekki tapa.

Við uppbyggingastarfið er mikilvægt að hafa í huga grunngildi Framsóknarflokksins um jöfnuð og samvinnu, þ.e. að saman getum við náð árangri og byggt upp betra samfélag. Einnig á gamalt slagorð Framsóknarflokksins vel við í dag; vinna – vöxtur – velferð. Við þurfum að ráðast í mikið átak í atvinnumálum á næstu árum. Atvinna fyrir alla leiðir af sér hagvöxt sem aftur gefur af sér velferð.“