Mikilvægt er að móta eigendastefnu fyrir fyrirtæki á borð við Landsvirkjun. Með þeim hætti er hægt að móta stefnu fyrirtækisins til lengri tíma.

Þetta sagði Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir.

Bryndís sagði að stjórn Landsvirkjunar hefði kallað eftir því að eigandinn, íslenska ríkið, mótaði eigendastefnu fyrir fyrirtækið. Hún sagði auðvelt að réttlæta það að fyrirtæki á borð við Landsvirkjun væru í eigu ríkisins. Þannig væri m.a. hægt að tryggja það að arður af nýtingu auðlinda þjóðarinnar rynnu til ríkisins. Hún sagði þó mikilvægt að móta eigendastefnu þannig að afskipti eigandans af fyrirtækinu væru ekki undir því komin hverjir væru við völd hverju sinni.

Bryndís tók sérstaklega fram að samskipti hennar við núverandi stjórnvöld hefðu verið með góðu móti. Hún sagði þó nauðsynlegt að festa stefnuna á blað.

Bryndís gagnrýndi hins vegar ríkisstjórnina harðlega hvað varðar launakjör forstjóra opinberra fyrirtækja. Hún sagði það hvergi þekkjast að vald til að ráða launum forstjóra væri tekið af stjórn fyrirtækja, jafnvel þó í ríkiseigu væru. Hún sagði það ekki fara saman að móta launastefnu embættismanna á vegum ríkisins og ríkisforstjóra á sama tíma. Þá minnti hún á að ríkisforstjórar hefðu ekki sömu réttindi og embættismenn. Sem kunnugt er hefur það verið opinber stefna ríkisstjórnarinnar að enginn starfsmaður á vegum ríkisins sé með hærri laun en forsætisráðherra.