Samfok, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, hafa ráðið nýjan framkvæmdastjóra til starfa. Bryndís Jónsdóttir tekur við starfinu af Guðrúnu Valdimarsdóttur sem sagði starfi sínu lausu þegar hún tók sæti á lista fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Í tilkynningu kemur fram að Bryndís hefur áður starfað sem styrktar- og sjúkrasjóðsfulltrúi hjá Bandalagi háskólamanna, upplýsingafulltrúi hjá Námsgagnastofnun, grunnskólakennari, dagskrárgerðarmaður og blaðamaður. Bryndís er að ljúka MS í Mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands en hefur áður lokið B.ed gráðu við Kennaraháskóla Íslands. Bryndís er gift og á þrjú börn á aldrinum 3ja til 16 ára.

Samfok annast upplýsingar og ráðgjöf um skóla- og uppeldismál til foreldra, foreldrafélaga, skólaráða og annarra. Helstu markmið samtakanna eru að standa vörð um réttindi barna til menntunar og þroska og beita sér fyrir auknum áhrifum foreldra á skólastarf. SAMFOK er sameiginlegur málsvari foreldra gagnvart stjórnvöldum. (Nánari upplýsingar á www.samfok.is )

Bryndís hefur aðsetur á skrifstofu Samfok að Suðurlandsbraut 24 í Reykjavík.