Bryndís Jónsdóttir mannauðsráðgjafi hefur gengið til liðs við fyrirtækið Talent ráðningar&ráðgjöf sem meðeigandi. Hún starfar þar við hlið Lindar Einarsdóttur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

,,Talent er nútímaleg ráðninga- og ráðgjafaþjónusta sem leggur áherslu á faglega og persónulega þjónustu. Að fyrirtækinu standa konur með mikla menntun og reynslu á sviði mannauðsmála og ráðninga," segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Bryndís er með MA gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, en áður lauk hún BA prófi í sálfræði frá sama skóla. Hún er með fjölbreytta starfsreynslu, en sameiginlegt með fyrri störfum hennar er mikil reynsla af innri og ytri þjónustu. Hún hefur níu ára víðtæka starfsreynslu úr mannauðsgeiranum, m.a. var hún framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Arion banka. Þá hefur hún níu ára reynslu úr ferðaþjónustu.

Síðustu misseri hefur Bryndís unnið sjálfstætt sem ráðgjafi í mannauðsmálum.