Bryndís Ragna Hákonardóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri hjá Icewear og hefur þegar hafið störf. Bryndís hefur áralanga reynslu í sölu- og markaðsmálum en hún starfaði áður hjá Veritas samsteypunni, þar á meðal sem sölu- og markaðsstjóri heilsuvöru deildar Artasan og sem sölu- og markaðsstjóri hjá Stoð.

Hún starfaði áður sem útflutningsstjóri hjá Kjötumboðinu með áherslu á uppbyggingu markaða í Norður Ameríku, Evrópu og Asíu og sem vörumerkjastjóri hjá Nóa Síríus fyrir innlendan og erlenda markaði.

Bryndís er útskrifaður viðskiptafræðingur frá American InterContinental University í Bandaríkjunum þar sem hún bjó og starfaði um árabil. Hún lærði næringarráðgjöf í Kaupmannahöfn þar sem hún útskrifaðist árið 2010 og vann við ráðgjöf tengdri heilsu og lífsstíl í Danmörku í tæpan áratug.

„Ég er mjög spennt að vera hluti af öflugu teymi Icewear og fá tækifæri til að taka þátt í nýsköpun fyrirtækisins í gerð útivistarfatnaðar ásamt fjölmörgum öðrum spennandi verkefnum tengdum bæði innlendum og erlendum mörkuðum,“ er haft eftir Bryndísi í tilkynningu.

Icewear selur útivistarvörur í nítján verslunum hér á landi auk vefverslunar sem selur vörur víða um heim.

„Það er mjög mikilvægt fyrir Icewear að fá Bryndísi með alla sína þekkingu og reynslu af markaðsstörfum inn í teymið og kraftar hennar munu klárega nýtast vel á þeirri hröðu vegferð sem Icewear er á með aukinni áherslu á nýsköpun og hönnun fyrir nýja markaði,“ segir Aðalsteinn Pálsson , framkvæmdastjóri Icewear.