Bryndís Pjetursdóttir hefur verið ráðin sölu- og markaðsstjóri alþjóðasviðs Icelandic Water Holdings. Þetta er nýtt starf hjá fyrirtækinu og mun Bryndís sjá um markaðssetningu, samskipti og samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins á alþjóðavísu, að utanskildum Norður-Ameríkumarkaði.

Í tilkynningu segir að Bryndís hafi starfað á sviðum samskipta og markaðsmála um árabil, síðast sem markaðsstjóri Höfuðborgarstofu sem ber ábyrgð á að markaðssetja Reykjavík sem áfangastað á alþjóðavettvangi. Hún lauk MA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands árið 2011 og MSc-gráðu í stjórnun markaðssamskipta frá Copenhagen Business School í Danmörku árið 2006.

Icelandic Water Holdings flytur út vatn undir merkinu Icelandic Glacial. Vatninu er tappað á flöskur í landi Hlíðarenda austur í Ölfusinu í nágrenni Þorlákshafnar og er þaðan flutt víða um heim. Jón Ólafsson og Kristján Ólafsson eru stærstu hluthafar fyrirtækisins ásamt bandaríska drykkjavöruframleiðandanum Anheuser Busch.