Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað Bryndísi Hlöðversdóttur í embætti ríkissáttasemjara til næstu fimm ára. Þetta kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins .

Bryndís var önnur þeirra tveggja umsækjenda sem taldir voru hæfastir til að gegna embættinu að áliti sérstakrar nefndar sem ráðherra skipaði til að leggja mat á hæfni umsækjenda.

Bryndís Hlöðversdóttir er lögfræðingur að mennt. Hún starfaði hjá Alþýðusambandi Íslands 1992-1995, var þingmaður Samfylkingarinnar 1995-2005, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst 2005-2011, aðstoðarrektor skólans frá 2006 og rektor 2011-2013. Frá árinu 2013 hefur Bryndís verið starfsmannastjóri Landspítalans.

Auk framantalinna starfa hefur Bryndís setið í stjórnum Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Eignasels, eignaumsýslufélags nýja Kaupþings og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Á árunum 2010-2013 var hún varamaður í Félagsdómi, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands.

Bryndís tekur við embætti ríkissáttasemjara 1. júní næstkomandi af Magnúsi Péturssyni sem gegnt hefur embættinu frá árinu 2008.