*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Fólk 13. mars 2020 13:54

Bryndís til Líf og sálar

Sálfræði og ráðgjafafyrirtækið Líf og Sál hefur ráðið Bryndísi Einarsdóttur, en hún hefur sérhæft sig í streitutengdum kvillum.

Ritstjórn
Bryndís Einarsdóttir starfaði áður hjá Heilsuborg, Heilsustöðinni, Heilsustofnun NLFÍ og Kvíðameðferðarstöðinni, en er nú gengin til liðs við Líf og sál.
Aðsend mynd

Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur hefur hafið störf hjá sálfræði- og ráðgjafafyritækinu Lífi og sál. Bryndís starfaði hjá Heilsuborg frá 2017 til ársbyrjunar 2020 og sinnti þar bæði einstaklingum sem og fyrirlestrum og námskeiðshaldi. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun eru komnir nýir rekstraraðilar að Heilsuborg eftir gjaldþrot félagsins sem stóð að rekstrinum.

Á árunum 2010 – 2017 starfaði Bryndís hjá Heilsustöðinni og jaframt hjá Heilsustofnun NLFÍ í tímabundnum afleysingum og sérhæfðum verkefnum. Þar á undan starfaði hún hjá Kvíðameðferðarstöðinni (2008-2010) og sá um mannauðsmál hjá Íshestum (2000 – 2003 og 2005 – 2011). Í starfsnámi sínu starfaði hún á göngudeild geðdeildar Viborg Sygehus.

Bryndís lauk Cand.Psych. prófi frá Árósarháskóla 2006 og BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1999. Bryndís lauk sérhæfingu í hugrænni atferlismeðferð (HAM) haustið 2010 og hefur einnig sérhæft sig í samkenndarsálfræði (compassion focused therapy) og núvitund sem og sótt námskeið og ráðstefnur sem snerta hennar sérsvið.

Bryndís er meðlimur í Sálfræðingafélagi Íslands, Félagi sjálfstætt starfandi sálfræðinga, Alúð, félagi um vakandi athygli og núvitund og Félagi fagfólks um offitu.

Bryndís hefur sérhæft sig í streitutengdum kvillum, svo sem kvíða, streitu, áfallastreitu og sorg. Hún vinnur líka með þunglyndi, lágt sjálfsmat, meðvirkni og heilsutengdar breytingar. Bryndís hefur einnig þekkingu og reynslu af vinnusálfræði, einna helst starfsánægju, kulnun starfsfólks og breytingaferlum í fyrirtækjum.