Brynhildur Ingvarsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Marinox ehf en Marinox er framleiðandi UNA Skincare húðvörulínunnar. Marinox hefur sérhæft sig í rannsóknum, þróun og framleiðslu á lífvirkum efnum úr sjávarþörunum og afurðum sem innihalda slík efni. UNA húðvörulínan koma á markað fyrir rúmu ári.

Brynhildur lauk meistaraprófi í fjölmiðlafræði frá Emerson College í Boston 2002 og BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1995. Hún starfaði áður sem markaðsstjóri EGF hjá Sif Cosmetics og sem sviðsstjóri miðlunarsviðs Þjóðminjasafns Íslands í aðdraganda uppbyggingar og enduropnunar safnins 1. september 2004.

„Marinox er eitt af þessum spennandi nýsköpunarfyrirtækjum sem byggir á traustum rannsóknum og eldmóði stofnendanna. Rannsóknir þeirra hafa leitt í ljós að úr einni tegund af sjávarþörungum sem vex við Íslandsstrendur er hægt að vinna mjög lífvirk efni með mikla andoxunarvirkni, sem eru ekki bara eftirsótt sem hráefni í snyrtivörur, heldur einnig sem verðmæt fæðubótarefni og íblöndunarefni í matvæli svo eitthvað sé nefnt,“ segir Brynhildur á vefsíðu Matís. Rannsóknar- og þróunarvinna UNU skincare húðvörulínunnar fór fram í samvinnu við Matís.