Brynhildur Georgsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu. Hún hóf störf hjá Íslandsstofu í lok nóvember 2020 er hún tók að sér hönnun og innleiðingu Heimstorgs Íslandsstofu sem veitir þjónustu við íslensk fyrirtæki vegna starfsemi í þróunarríkjum og víðar.

Síðustu ellefu árin starfaði hún hjá Arion banka þar sem hún var meðal annars útibússtjóri í tilraunaútibúi um aukna rafræna þjónustu og forstöðumaður rekstraráhættu bankans. Brynhildur er lögfræðingur með MBA-gráðu.

„Hún hefur mikla reynslu af þróun rafrænna lausna, mótun á þjónustu við viðskiptavini, innri umbótaverkefnum, markmiðasetningu og árangursmælingum,“ segir í fréttatilkynningu.

Viðskiptaþróunarsviðið vinnur að þróun fjölbreyttrar þjónustu Íslandsstofu við fyrirtæki og ber ábyrgð á Útflutningsstefnu Íslands, innleiðingu hennar og mælikvörðum. Sviðið sinnir alþjóðlegum samskiptum og heldur utan um innri og ytri umbótaverkefni Íslandsstofu, meðal annars rekstrartengd mál.

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda og hefur það hlutverk að greiða fólki og fyrirtækjum leið á erlenda markaði og markaðssetja Ísland til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar.