Brynja Guðmundsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður hagdeildar Alfesca. Hjá Alfesca mun Brynja stýra samstæðuuppgjöri félagsins, upplýsingagjöf, áætlanagerð, tölulegum greiningum o.fl. fjármálatengdum verkefnum. Brynja mun starfa í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Íslandi.

Brynja, sem er 39 ára, brautskráðist af endurskoðunarsviði Viðskiptadeildar Háskóla Íslands 1991 og hefur víðtæka reynslu af ábyrgðarstörfum tengdum fjármálum fyrirtækja.

Áður en Brynja gekk til liðs við Alfesca var hún framkvæmdastjóri fjármálasviðs og innri upplýsingakerfa hjá Skýrr hf. þar sem hún hóf störf árið 2000. Árin 1997-2000 starfaði Brynja sem forstöðumaður hagdeildar hjá Landssímanum en þar áður var hún fjármálastjóri hjá Lýsi hf. og aðalbókari hjá Íslenska útvarpsfélaginu hf.

Brynja hefur setið í stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga og Skýrslutæknifélagsins, auk þess að sitja í nefndum á vegum félaganna.