Eins og hefur farið víða um netheima í dag setti Kári Stefánsson framkvæmdastjóri DeCODE af stað undirskriftasöfnun sem miðar að því að skora á stjórnvöld að veita 11% vergrar landsframleiðslu til heilbrigðiskerfisins í fjárlögum hvers árs.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veltir þessari undirskriftasöfnun fyrir sér á Facebook-síðu sinni í dag.

„Nú hefur Kári Stefánsson hrundið af stað undirskriftarsöfnun með áskorun um að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðismála," segir Brynjar. „Á mannamáli þýðir þetta að Kári vilji bæta við um 50 milljörðum til heilbrigðismála á hverju ári eins og staðan er nú."

Brynjar segist viss um að Kári hafi andúð á lýðskrumi, en segist ekki skilja hvaðan fjármagnið sem á að fara í heilbrigðiskerfið á að koma.

Að því að ég þykist vita að Kári hafi megnustu andúð á öllu lýðskrumi er eðlilegt að spyrja hvar hann vilji skera niður á móti þessum 50 milljörðum sem bæta á í heilbrigðiskerfið.

Væntanlega ekki með því að draga úr bótum til elli-og örorkulífeyrisþega og heldur ekki taka af þá rúmlegu 20 milljarða sem ríki og sveitafélög greiða til stuðnings menningu og listum, eins menningarsinnaður og Kári er. Kannski að Kári vilji fella niður fæðingarorlof. Tæplega.

Að lokum endar Brynjar á að tala um að líkast til muni tillögur Kára leiða til skattahækkana - og í kjölfar skattahækkanana muni þessi 11% verða smærri tala vegna samdráttar í landsframleiðslu, sem að sögn Brynjars er oftar en ekki afleiðing aukinnar skattheimtu:

Nei, ætli niðurstaðan verði ekki sú að það þurfi að hækka skatta þótt við nú þegar tökum til ríkissjóðs hærra hlutfall af landsframleiðslu í gegnum skattkerfið en nokkur önnur þjóð í hinum vestræna heimi.

Svo gleyma menn oft að þegar skattar eru hækkaðir vill landsframleiðslan dragast saman og tekjur ríkisins þar með. Þá geta þessi 11% hans Kára orðið lægri fjárhæð en þú þegar er varið í heilbrigðiskerfið.