Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt orð í belg vegna meints fjárdráttar Björgvins G. Sigurðssonar, fyrrverandi sveitarstjóra í Ásahreppi, en sem kunnugt er hefur Björgvin ákveðið að fara í áfengismeðferð vegna málsins.

Þannig segir Brynjar í stöðuuppfærslu á Fasbók að vel megi vera að hægt sé að heimfæra verknað Björgvins til refsilagaákvæðis miðað við hans eigin frásögn af atvikum. „Hins vegar liggur fyrir að hann leyndi engu og gerði ráð fyrir að þessum úttektum yrði skuldajafnað við laun hans. Því er engin ástæða til að kæra málið til lögreglu og leysa á málið með öðrum hætti,“ segir Brynjar.

Þá segir Brynjar að þótt Björgvin hafi gert mistök biðji hann menn um að gæta sín í umfjöllun um málið.

„Það er rétt sem einn maður sagði, þegar ég og fleiri lögfræðingar vorum að rökræða hvort sú hegðun að nota fé annarra í eigin þágu félli undir umboðssvik eða fjárdrátt, að enginn er fullkominn. Svo er oft hægt að leysa mál öðruvísi en að sparka sem fastast í liggjandi menn.“